„Fólk ætlar að vera með læti“

Lögreglumenn setja upp lokanir.
Lögreglumenn setja upp lokanir. mbl.is/Golli

Lögregluþjónar setja nú upp lokanir við Kirkjustræti fyrir framan Alþingishúsið vegna mótmæla sem munu fara þar fram klukkan 17 í dag.

Rúmlega 1.600 manns hafa boðað komu sína, en þetta er í þriðja sinn á síðustu fjórum dögum sem fólk kemur saman til að mótmæla ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að slíta endanlega aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Sem kunn­ugt er af­henti Gunn­ar Bragi Sveins­son, ut­an­rík­is­ráðherra, full­trú­um sam­bands­ins bréf á fimmtu­dag­inn þar sem seg­ir að rík­is­stjórn­in hafi samþykkt að hún hygg­ist ekki taka upp aðild­ar­viðræður við ESB á ný.

Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir um lágmarkslokanir að ræða, þar sem ekki sé von á miklu fólki. „Við setjum engu að síður upp lokanir þar sem það er ekki dagskrá á mótmælafundinum eins og í gær, og það er þingfundur á Alþingi í dag sem var ekki í gær,“ segir hann, en eins og mbl.is greindi frá komu um sjö þúsund manns saman á Austurvelli í gær til að mótmæla.

Arnar segir lögreglu búast við því að mótmælin í dag verði annars eðlis en í gær, þar sem annar hópur standi fyrir þeim og hyggist fólk „mæta með búsáhöld og trommur og vera með læti. Mótmælendurnir eru ánægðir með það að við skulum setja upp grindurnar og verða fúlir ef við komum ekki með þær því þetta eru ágætis hávaðaverkfæri,“ segir hann. 

Loks segist hann ekki vita til þess að boðuð hafi verið önnur mótmæli, en lögregla muni fylgjast vel með og taka afstöðu til lokana þegar að því kemur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert