Engar nýjar upplýsingar á fundinum

Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.
Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis. mbl.is/Golli

„Ég met það nú ekki svo að það hafi komið fram neinar nýjar upplýsingar, sem ekki hafa komið fram í opinberri umræðu áður,“ segir Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Nefndin fundaði í morgun með Gunnari Braga Sveinssyni, utanríkisráðherra, sem gerði grein fyrir bréfi sínu til fulltrúa Evrópusambandsins og efni þess. 

„Nefndarmenn höfðu margir hverjir spurningar og athugasemdir við það,“ segir Birgir. Hann segir að utanríkisráðherra hafi sagt, eins og hann hefur gert áður, að það væri mat ríkisstjórnarinnar að ferlinu sem hófst árið 2009 væri lokið.

Engar ákvarðanir voru teknar á fundinum og segir Birgir að það hafi ekki legið fyrir fundinum að taka neinar ákvarðanir um málið. „Það hafa engar ákvarðanir verið teknar, enda er ekki fyrir hendi neitt þingmál sem nefndin þarf að taka afstöðu til. Ég dreg hins vegar ekki í efa að nefndarmenn munu hafa áhuga á því að ræða þessi mál áfram,“ segir Birgir og bætir við að það geti komið til þess að nefndin eigi aftur fund með utanríkisráðherra um þessi mál síðar.

„Aðildarviðræðum er formlega lokið“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata og áheyrnarfulltrúi í utanríkismálanefnd, greindi frá því á Facebook-síðu sinni í morgun að Gunnar Bragi Sveinsson hefði lýst því yfir á fundinum að aðildarviðræðum væri formlega lokið og að búið sé að núllstilla ferlið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert