Skiptir sér ekki af umræðunni á Íslandi

AFP

„Ég tel að þetta sé eitthvað sem Ísland verði að ákveða innanlands. Evrópusambandið getur skipt sér af stjórnmálaumræðunni í landinu. Það er Íslands að ákveða hver nákvæmlega staða landsins er gagnvart sambandinu.“

Þetta sagði Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, á blaðamannafundi í Brussel í dag eftir fund í ráðherraráði Evrópusambandsins en Lettland fer með forsætið í ráðinu fram á sumar. Ráðherrann var spurður af blaðamanni um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu og hvort hann gæti útskýrt hvað væri um að vera í landinu í þeim efnum. Bréf hefðu bæði komið frá stjórnvöldum og stjórnarandstöðunni sem gengju sitt í hvora áttina.

Rinkevics sagðist hafa kynnt bréfin fyrir ráðherraráðinu sem hefðu tekið þau til skoðunar. Ekki stæði til að sérstök umræða færi fram um þau innan ráðsins. Hann ítrekaði hins vegar að það væri Íslands að ákveða hvernig landið tæki á málinu í samræmi við stjórnskipun þess.

Spurður áfram hvort rétt væri að ef Íslands ákveddi að taka upp þráðinn að nýju þyrfti landið ekki að sækja um á nýjan leik sagði ráðherrann að hann vildi ekkert tjá sig um málið. Bréfin hefðu verið tekin til skoðunar en ráðherraráðið ætlaði ekki að blanda sér í stjórnmálaumræðuna á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert