Eldurinn stóð 10 metra upp í loftið

Ljóst er að tjón hjónanna er mikið.
Ljóst er að tjón hjónanna er mikið. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eigandi garðyrkjustöðvarinnar Brúnulaugar í Eyjafirði telur að tjón vegna eldsvoðans í nótt sé að minnsta kosti 15 milljónir. Lögregla og slökkvilið á Akureyri voru kölluð út um tvöleytið í nótt vegna elds í garðyrkjustöðinni. 

Hann telur hugsanlegt að eldur hafi kviknað út frá rafmagnstöflu í nótt en miklar skemmdir urðu á tveimur stórum gróðurhúsum. Um er að ræða tvö samliggjandi hús en paprikuræktun er í húsunum. Rafmagnstaflan er í millibyggingu, þar sem m.a. var pökkunaraðstaða, og þar eru öll tæki gjörónýt.

Gísli Hallgrímsson rekur Brúnulaug ásamt eiginkonu sinni Önnu Sigríði Pétursdóttur. Hann segir að töluvert áfall hafi verið að vakna við eldsvoðann í nótt en Anna Sigríður varð eldsins vör um tvöleytið. „Við heyrðum einhvern hávaða og skildum ekki alveg hvað var í gangi,“ segir Gísli í samtali við mbl.is.

Ætlaði að tína paprikurnar í næstu viku

Brúnalaug er í Eyjafjarðarsveit, um 17 kílómetrum sunnan Akureyrar, og því tók dálítinn tíma fyrir slökkviliðið að koma á vettvang. „Á meðan brennur auðvitað hellingur en það er ekki við þá að sakast greyin. Þeir komu alveg í hvelli,“ segir Gísli. Mikill eldsmatur var í húsunum og segir hann að eldurinn hafi staðið um 10 metra upp fyrir húsið.

Hjónin sáðu fyrir 1. desember og stóð til að tína paprikurnar í næstu viku. „Þetta getur þýtt að maður er tekjulaus hálft árið,“ segir Gísli. Hann telur þó að hann sé nægilega vel tryggður. „Ég þumbast með þetta en þetta er samt áfall.“

Frétt mbl.is: Miklar skemmdir í eldsvoða

Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Eigandi Brúnulaugar telur að kviknað hafi í rafmagnstöflu.
Eigandi Brúnulaugar telur að kviknað hafi í rafmagnstöflu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Um er að ræða tvö samliggjandi hús en paprikuræktun er …
Um er að ræða tvö samliggjandi hús en paprikuræktun er í húsunum mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert