Báru hana sjálfar og jarðsettu

Fjöldi fólks mótmælti fyrir utan aðsetur hæstaréttar í Kabúl í …
Fjöldi fólks mótmælti fyrir utan aðsetur hæstaréttar í Kabúl í dag. AFP

Afganskar konur á Íslandi munu í dag halda minningarstund í Perlufestinni í Hljómskálagarðinum um Farkhunda, 27 ára konu sem var myrt af múg í Kabúl í síðustu viku. Þær hvetja íslenska samborgara sína til að mæta og taka þátt í að fordæma verknaðinn.

„Í dag fara fram mótmæli í Afganistan og þetta er mjög stórt mál,“ segir Fatima Hossaini, ein skipuleggjenda viðburðarins. Hún segir afar mikilvægt að fordæma morðið á Farkhunda; annars sé hætta á því að verknaður af þessu tagi verði framinn á ný.

Farkhunda, sem var afar trúuð, var ranglega sökuð um að hafa brennt Kóraninn, og var í kjölfarið barinn til dauða af æstum múg. Keyrt var yfir hana og hún brennd, áður en líkamsleifum hennar var kastað í ánna Kabul.

Um 3.000 manns mótmæltu verknaðinum í höfuðborginni í dag, en skipuleggjendur segja mótmælin meðal stærstu í sögu borgarinnar. Að því er fram kemur hjá Guardian hrópuðu viðstaddir „Réttlæti fyrir Farkhunda!“ og „Dauði fyrir morðingjana!“

Samkvæmt lögreglu hafa 18 verið handteknir í tengslum við morðið og þá hafa 13 lögreglumenn verið leystir frá störfum fyrir að standa aðgerðarlausir hjá.

Meira talað um ofbeldi í Afganistan í dag

Fatima Hossaini hefur verið búsett á Íslandi í fjögur ár. Hún fæddist í Íran, dóttir afganskra flóttamanna, flutti aftur til heimalandsins í stjórnartíð Talibana, en var tilneydd til að flýja aftur þegar stríð braust út 2001. Hún bjó um tíma í Pakistan en snéri heim í annað sinn þegar búið var að koma Talibönum frá völdum.

„Ástandið í Afganistan hefur batnað mikið, ef þú berð það saman við þegar Talibanar voru við völd,“ segir Fatima um stöðu kvenna í afgönsku samfélagi. Hún segir ofbeldi af því tagi sem Farkhunda var beitt fátítt, en hins vegar sé heimilisofbeldi viðvarandi vandamál í Afganistan, líkt og víðar.

„Það hafa borist fréttir af ofbeldi gegn konum í Afganistan [nýverið] en það er ekki vegna þess að það var ekkert ofbeldi áður eða að það sé að aukast í dag. Nei, það er af því að fólk veit núna að það getur talað um það og leitað réttlætis og það vill gera það opinbert,“ segir hún.

Fatima segir mikilvægt að viðhalda þeirri hreyfingu sem fór af stað í kjölfar dauða Farkhunda, þar sem afganskar konur brutu m.a. gegn viðteknum venjum og sáu alfarið um útför hinnar látnu.

„Konurnar leyfðu körlunum ekki að snerta líkama stúlkunnar, sem brýtur ákveðið tabú, því áður var konum ekki heimilt að sjá um útfarir. Og það voru konur sem báru kistuna og konur sem létu hana síga í gröfina, og það er stórt skref. Við verðum að vinna gegn þessum tabúum í samfélaginu,“ segir Fatima.

Nokkur vonbrigði með forsetann

Fatima segir afganskar konur hafa bundið vonir við Ashraf Ghani Ahmadzai, sem var kjörinn forseti í fyrra, en þær hafi að vissu leyti brugðist.

„Ég var líka bjartsýn varðandi Ashraf Ghani Ahmadzai, af því að þegar ég var í háskólanámi [við Kabúl-háskóla] var hann rektor og hann var maður aðgerða, ákveðinn og orðheldinn. En þróunin eftir kosningar hefur ekki verið sú sem við vonuðum,“ segir Fatima.

Hún segir stjórnkerfið hafa kallað á að forsetinn gerði margar málamiðlanir og þá hafi það ekki síst valdið vonbrigðum að hann skyldi halda beint í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna eftir morðið á Farkhunda, í stað þess að fresta henni og takast á við málið.

Perlufestin er höggmyndagarður til minningar um formæður íslenskrar höggmyndalistar. Minningarstundin hefst kl. 17.30.

Frétt: Tekin af lífi án dóms og laga

Afganskar konur hafa tekið einarða afstöðu gegn hinum ofbeldisfulla verknaði.
Afganskar konur hafa tekið einarða afstöðu gegn hinum ofbeldisfulla verknaði. AFP
Afganskar konur sendu mjög sterk skilaboð þegar þær báru Farkhunda …
Afganskar konur sendu mjög sterk skilaboð þegar þær báru Farkhunda til grafar, en í Afganistan koma konur venjulega ekki að framkvæmd útfara. AFP
Forseti Afganistan, Ashraf Ghani Ahmadzai, er staddur í opinberri heimsókn …
Forseti Afganistan, Ashraf Ghani Ahmadzai, er staddur í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert