„Herra forseti, ég skil ekkert“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingar. mbl.is/Ómar

„Herra forseti, ég skil ekkert, í svona dagskrárgerð,“ sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar á Alþingi í dag. „Hvaða mál eru svo brýn að það sé ekki hægt að setja þetta mál á dagskrá?“

Þingsályktunartillaga stjórnarandstöðuflokkanna, um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB, var til umræðu og mótmæltu þingmenn stjórnarandstöðunnar því ákaft að hún skyldi ekki vera tekin til dagskrár.

Valgerður Bjarnadóttir þingmaður Samfylkingar var ein þeirra sem mótmæltu dagskrá Alþingis. „Að mál sem stjórnarandstöðuflokkarnir bera allir upp saman, að það komist ekki á dagskrá. Mig rekur ekki minni til að stjórnarandstaðan hafi áður þurft að sæta slíkri framkomu.“

„Það er fáheyrt að mál sem fjórir formenn stjórnarandstöðuflokka leggja til umræðu sé ekki rætt um leið og það kemur fram,“ sagði Össur Skarphéðinsson þingmaður Samfylkingar.

„Ég tel að það sé óásættanlegt að forseti Alþingis færi ekki málefnaleg rök fyrir því að þingsályktunartillagan sé ekki tekin til dagskrár,“ sagði Svandís Svavarsdóttir þingmaður Vinstri grænna.

„Ég bið bara að heilsa“

„Ég bið bara að heilsa, þegar viðkomandi háttvirtur þingmaður hefur svarað símanum sínum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokks er hann steig upp í pontu, en á sama tíma glumdi um þingsal hringing úr síma þingmanns. Guðlaugur hvatti til þess að málið yrði rætt í þaula eftir páskaleyfi þingsins.

„Það er nú enginn urmull af mikilvægum málum að koma frá ríkisstjórninni. Stjórnarandstöðuflokkarnir krefjast þess að þetta mál sé tekið til dagskrár núna og stjórnarflokkarnir báðir lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir kosningar. Af hverju tökum við þetta þá ekki til dagskrár?“ spurði Guðmundur Steingrímsson formaður Bjartrar framtíðar.

„Það er neyðarástand í þjóðfélaginu og samfélagið er klofið. Kosningaloforð voru brotin,“ sagði Halldóra Mogensen þingmaður Pírata. „Ég skil ekki fyrir hvern hæstvirtur forseti vinnur.“

Forseti Alþingis tók þá til máls og sagðist hafa sýnt það í verki að honum þætti málið virkilega brýnt og af þeim sökum hafi hann sett það á dagskrá strax að loknu páskaleyfi þingmanna.

Guðlaugur Þór Þórðar­son.
Guðlaugur Þór Þórðar­son. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert