Fækkar sem vilja þjóðaratkvæði

AFP

Færri vilja halda í umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Gallup sem birt var í gær en í hliðstæðri könnun sem gerð var af fyrirtækinu í febrúar fyrir samtökin Já Ísland sem styðja inngöngu í sambandið.

Þannig vilja 51% halda í umsóknina samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Gallup en hlutfallið var hins vegar 53,2% í febrúar. Að sama skapi fjölgar þeim sem eru hlynntir því að draga umsóknina til baka. Þeir voru 35,7% í febrúar en mælast nú 39%. Könnunin nú var gerð dagana 19. - 25. mars eftir að ríkisstjórnin tók þá ákvörun um miðjan síðasta mánuð að tilkynna Evrópusambandinu að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að sambandinu.

Einnig var spurt um afstöðu fólks til þjóðaratkvæðis um framhald umsóknarferlisins að Evrópusambandinu í nýrri könnun Gallup og sögðust 65% styðja að slík kosning færi fram. Þetta er talsvert lægra hlutfall en í sambærilegri könnun fyrirtækisins fyrir ári síðan en þá vildu 72% þjóðaratkvæði um framhald málsins. Fyrir ári voru 21% andvíg því að slík þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin en það á við um 24% samkvæmt nýjustu könnun Gallup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert