Ferðamenn þyrftu að hafa nesti

Fjölmargir erlendir ferðamenn voru á landinu um páskahelgina.
Fjölmargir erlendir ferðamenn voru á landinu um páskahelgina. mbl.is/Ómar Óskarsson

 „Klárlega væri miklu eðlilegra að breyta þessu og fara eftir þeim lögum sem þá í gildi eru. Breytingin hefur orðið þrátt fyrir að lögin séu þau sömu,“ segir Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, aðspurð um skoðun hennar á lögum um helgidagafrið sem síðast voru endurskoðuð árið 1999. Í samtali við mbl.is í gær sagði Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup Skálholtsumdæmis, að mikilvægt væri að breyta þessum lögum og taka mið af samfélaginu eins og það er í dag.

Margrét fagnar viðhorfum Kristjáns og því að Þjóðkirkjan sé að nútímavæðast. „Það náttúrulega sjá flestir að það er ekkert vit í þessu eins og þetta var,“ segir Margrét. „Ferðamannastraumurinn hefur valdið miklum breytingum síðustu ár og ýtt við okkur, ekki bara um páska líka um jól. Almenn þjónusta við ferðamenn hefur stóraukist á síðustu árum á þessum dögum, ferðamenn fengu varla að borða á hótelum áður,“ segir hún. 

Helgidagalöggjöfin barn síns tíma

Tekur Margrét undir orð Kristjáns Vals um að áður fyrr hafi frekar verið opið á helgidögum á landsbyggðinni heldur en í höfuðborginni. „Ég held að þetta hafi verið breytilegt eftir landshlutum. Á þeim svæðum þar sem mikil umferð er um páska, eins og á Ísafirði og Akureyri, voru menn ekki eins strangir og á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Margrét. „Það liggur við að við höfum verið heilagri en páfinn í þessum málum. Ég bjó eitt sinni í kaþólsku ríki og þar var opið alla daga eins og á föstudaginn langa. Það kom mér virkilega á óvart.“

Margrét segir að flestir sem að þessu standa séu sammála um það að það þurfi að nútímavæða lögin sem ekki endilega er farið eftir. „Ef það væri farið eftir lögunum þyrftu ferðamenn bara að taka með sér nesti, það er bara þannig. En menn hafa ekki verið að ganga hart eftir því að þessum lögum sé fylgt síðustu ár. En þau eru þó barn síns tíma, ég held að við séum öll sammála um það.“

Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu.
Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert