Átta milljónir fylgjast með Heiðu

Heiða Rún leikur Elizabeth Chenowth í þáttunum Poldark.
Heiða Rún leikur Elizabeth Chenowth í þáttunum Poldark. www.independent.co.uk/

„Ég má ekki nefna nákvæmlega til hve langs tíma sá samningur er en get sagt að það eru nokkur ár.“

Þetta segir Heiða Rún Sigurðardóttir leikkona sem leikur eitt aðalhlutverkanna í sjónvarpsþáttunum Poldark sem BBC 1 sýnir við miklar vinsældir en nær 8 milljónir Breta horfa á hvern þátt.

Heiða Rún hefur nú gert samning um að leika í þáttunum næstu árin. Margir telja að miðað við viðtökur geti Poldark náð þeim alþjóðlegu vinsældum sem Downton Abbey hefur notið. Heiða Rún er í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, sem út kom í dag.

Þrátt fyrir að nokkrir íslenskir leikara hafi fengið stór hlutverk ytra, í sjónvarpi og bíómyndum, eru þeir fáir sem hafa lent í verkefni á borð við það sem Heiðu Rún Sigurðardóttur, eða Heidu Reed eins og hún kallast úti, hefur hlotnast.

Það er nefnilega ekki það sama að fá stór hlutverk ytra í flottu verkefni og að það gangi svo ofan í áhorfendur og nái hæstu hæðum í vinsældum.

Oft veldur áhorf vonbrigðum, kvikmyndir fá ekki aðsókn og sjónvarpsþættir eru lagðir niður en Heiða Rún er í virkilega góðum málum með sitt hlutskipti – hún nýtur þess núna að nær 8 milljónir Breta horfa á hvern þátt sem hún leikur í af Poldark á BBC 1 á sunnudagskvöldum. Heiða Rún fer þar með eitt af aðalhlutverkunum en þátturinn hefur fengið frábærar viðtökur, bæði hjá áhorfendum og gagnrýnendum og á einni þekktustu gagnrýnendavefsíðu heims; IMDB, fá þættirnir tæplega 9 af 10 í einkunn.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="480" src="https://www.youtube.com/embed/OmpQ_7uPKNg" width="853"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>

Poldark gæti orðið flaggskip BBC næstu árin, en nú þegar hefur Heiða Rún skrifað undir samning til nokkurra ára um áframhaldandi leik í þáttunum.

Heiða segist hafa töluverðar áhyggjur af því að sletta mikið í viðtalinu því íslenskan hennar sé töluvert ryðguð. Hún hefur búið erlendis frá því hún var 18 ára, nærri áratug.

Upphaflega flutti Heiða Rún til Indlands þar sem hún ætlaði að starfa sem fyrirsæta fyrir Eskimo Models í 3 mánuði. Sá tími varð að 1 og ½ ári. Heiða Rún lék í auglýsingum og tónlistarmyndböndum og myndir og veggmyndir mátti sjá um allt Indland á þeim tíma en hún birtist á blaðsíðum Cosmopolitan, Marie Claire, Elle og Verve Magazine.

Heiða Rún ferðaðist víða á þessum tíma, sérstaklega í Asíu. „Það var helsti kosturinn við starfið. Ég ætlaði mér hins vegar aldrei að vera í þessu til langframa og hætti tvítug þegar ég fór til London til að fara í prufur fyrir leiklistarskólann, það var alltaf ætlunin að verða leikkona.“

Heiða lék í íslensku þáttunum Hrauninu sem RÚV sýndi í fyrra en hefur annars alfarið starfað erlendis frá því að hún útskrifaðist sem leikari frá Drama Centre London, Central St. Martins fyrir fimm árum, skólanum sem Colin Firth og Pierce Brosnan lærðu meðal annars í. Til að komast í þann skóla þarf að fara í gegnum tvö þúsund manna síu og vera einn af þrælheppnum 30 umsækjendum sem komast að. Og má þá ekki gleyma að í ofanálag tekur skólinn helmingi fleiri stráka inn en stelpur svo líkurnar eru enn minni.

Heiða Rún landaði stóru hlutverki

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="480" src="https://www.youtube.com/embed/zeEc4ZyEwRw" width="853"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert