Hugsar til þessa dags daglega

Vilborg Arna Gissurardóttir og Ingólfur Axelsson eru meðal þeirra hundruð fjallgöngumanna og sjerpa sem minnast þeirra 16 sem fórust á Everest fyrir ári síðan. Þau eru bæði að reyna aftur við stærsta fjall heims eftir að hafa þurft að hætta eftir slysið skelfilega í fyrra.

Vilborg Arna minnist fórnarlambanna á bloggi sínu í dag en þar skrifar hún um að í dag er eitt ár liðið frá snjóflóðinu mikla í Khumbu ísfallinu.

„Við minnumst þeirra 16 sherpa sem létu lífið. Í morgun báðu sherparnir í okkar teymi bænir og héldu puja athöfn en það hefur verið mjög kyrrt yfir campinum það sem af er degi. Enginn fer í gegnum ísfallið í dag í virðingarskyni við atburðina í fyrra.

Ég man þennan dag eins og hann hafi gerst í gær og síðan þá hefur ekki liðið sá dagur sem ég hafi hugsað til þessa dags. Allt það sem maður sá og upplifði og ekki síst dagarnir á eftir, sorgin, barátta sherpanna og ekki síst það mannlega eðli sem maður varð vitni að í kjölfarið.

Dagarnir að ég kom heim voru erfiðir og það hefur tekið á að takast á við þessa reynslu, margir þeirra sem voru hérna í fyrra hafa sömu sögu að segja. Það var erfitt að leggja af stað aftur á fjallið með þessa reynslu ã bakinu. Dagarnir fyrir brottför voru síður en svo auðveldir.

Í gær fórum við í fyrsta skipti upp í ísfallið og það var kökkur í hálsinum á leiðinni. En þannig verður það í þessari ferð, Everst er orðin önnur og meiri áskorun en það var í upphafi.

Á sama tíma og maður þarf að vera „badass” og takast á við klifrið, kuldann sem verður uppi, óttann sem þarf að díla við að þá koma þessar tilfinningar líka upp á yfirborðið. En það er einfaldlega að maður verður að takast á við þá hluti sem manni finnast erfiðir og óþæginlegir, annars kemst maður aldrei yfir þá.

Ég á sem betur fer góða að, kærastinn minn sendir mér hvatningu á hverjum degi, vinir, fjölskylda, samstarfsaðilar og fólk úr öllum áttum hefur sýnt mér stuðning og fyrir það er ég ævinlega þakklát. Við höldum kyrru fyrir á morgun líka en höldum svo áfram með aðlögunina eftir það. Styttist í fyrstu stóru ferðina upp fjallið en hún tekur sex daga,“ skrifar Vilborg Arna. 

Ingólfur minnist einnig þeirra sem fórust á sínu bloggi en hann er einnig á leið upp Everest eftir að hafa þurft frá að hverfa í fyrra.

Everest gefið frí í dag

Everest fjall fær frí frá fjallgöngumönnum í dag því það fer enginn á fjallið í dag í virðingarskyni við þá sextán nepölsku leiðsögumenn sem fórust í snjóflóðinu í fyrra.

Í kjölfar slyssins í fyrra var lagt bann við ferðum upp á Everest, hæsta fjalls heims 8.848 metrar að hæð, og leiðsögumenn kröfðust bættra skilyrða, bæði hærri launa og meira öryggis við störf sín. Eins að fjölskyldur þeirra sem fórust fengju hærri bætur fyrir þá sem fórust eða slösuðust.

Yfirvöld vöktu reiði meðal leiðsögumannanna með því að bjóða fjölskyldum þeirra sem fórust bætur að andvirði 400 Bandaríkjadala, jafnvirði 54.000 króna. Ákveðið var síðar að hækka bæturnar í 5.000 dali, tæpar 680.000 krónur.

Leiðsögumenn og burðarmenn úr röðum sjerpa segja að stjórnin hafi hunsað beiðni þeirra um að 30% af tekjum ríkisins af gönguleyfunum renni í styrktarsjóð fyrir fjölskyldur þeirra.

„Við eigum svo fárra kosta völ að við þurfum að taka að okkur störf sem geta kostað okkur lífið,“ sagði sjerpinn Sange sem missti marga vini í snjóflóðinu mannskæða fyrir ári. „Þegar upp var staðið töpuðum við á hléinu sem varð á fjallgöngunum. Á venjulegu ári þéna ég 3.000 til 4.000 dali [400.000 til 540.000 krónur] á Everest-göngum. Á síðasta ári voru launin mín 1.500 dalir [rúmar 200.000 krónur].“

„Allir leiðangrar hér hafa tekið saman þá ákvörðun að taka hvíld í dag til þess að syrgja vini sem við misstum í fyrra,“ segir Pasang Sherpa, a fjallaleiðsögumaður í viðtali við AFP.

Hann segir daginn sorgardag en hann var í búðunum þar sem snjóflóðið féll í fyrra.

Munkar í Katmandú minnast þeirra látnu með bænum og fjölskyldur þeirra sem fórust koma saman og syrgja. 

AFP
Vilborg Arna Gissuarardóttir steig sín fyrstu skref á Khumbu ísfalllinu. …
Vilborg Arna Gissuarardóttir steig sín fyrstu skref á Khumbu ísfalllinu. Ógnvekjandi og stórkostlegt í senn, skrifar hún á Facebook Ljósmynd/Vilborg Arna.
Sam Chappatte og Alexandra Schneider eru meðal fjölmargra fjallgöngumanna sem …
Sam Chappatte og Alexandra Schneider eru meðal fjölmargra fjallgöngumanna sem bíða í Lukla og undirbúa för í grunnbúðir Everest AFP
AFP
AFP
Vilborg Arna
Vilborg Arna Ljósmynd/Vilborg Arna
Ingólfur Axelsson.
Ingólfur Axelsson. Af Facebook
16 fórust í snjóflóðinu fyrir ári síðan
16 fórust í snjóflóðinu fyrir ári síðan AFP
Mynd/AFP
Ógnar kraftur býr í snjóflóðum en hér er flóðið sem …
Ógnar kraftur býr í snjóflóðum en hér er flóðið sem kostaði 16 lífið á föstudaginn langa í fyrra mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert