Talaði um að „hífa Kaupþing upp“

„Ég er að pæla í hvort við ættum að styðja örlítið við markaðinn sko,“ sagði Einar Pálmi Sigmundsson, þáverandi forstöðumaður eigin viðskipta í Kaupþing banka, í nóvember 2007 í samtali við Pétur Kristin Guðmarsson sem þá var verðbréfamiðlari hjá eigin viðskiptum bankans. Lagði Einar ennfremur til að keypt yrðu bréf í Kaupþingi á „síðustu metrunum“ og tók Pétur undir það.

Símtalið var spilað í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag við aðalmeðferð í stóra markaðsmisnotkunarmálinu sem hófst í morgun. Bæði Einar og Pétur eru á meðal hinna ákærðu í málinu. Eru þeir ákærðir fyrir markaðsmisnotkun með því að koma að viðskiptum með bréf Kaupþings í því skyni að hækka eða halda gengi bréfanna háu.

Ítar­leg frétta­skýr­ing mbl.is um málið: Mál án for­dæma

Síðar í símtalinu lagði Einar til að lagt yrði fram „soldið sterkt bid“ á síðustu metrunum. Þá hugsanlega í Glitni, Landsbankanum, Straumi og FL Group. „Ef við eigum ekki of mikið hérna og hífa Kaupþing upp.“ Í öðru símtali um sama leyti talaði Einar um að vera „svolítið sterkir í byrjun“ og bætti við „ekki kannski láta þetta hækka“ og talaði síðan um að „byrja á að verja síðasta gengi.“

Símtölin voru spiluð við skýrslutöku á Pétri fyrir héraðsdómi en skýrsla verður tekin síðar af Einari. Aðalmeðferð og málflutningur málsins mun standa til 22. maí samkvæmt dagskrá. Pétur kannaðist ekki við að hafa tekið þátt í ólögmætum viðskiptum við að halda gengi Kaupþings uppi. Hins vegar hafi allir bankar á þessum tíma verið að reyna að verja gengi eigin bréfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert