Greiðir ekki fyrir lausn deilunnar

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn

„Það er alvarlegt ástand á vinnumarkaði eins og ekki fer fram hjá nokkrum manni. Formaður Sjálfstæðisflokksins kom í ræðustól í gær og gaf yfirlýsingar sem voru ekki til þess fallnar að greiða fyrir lausn kjaradeilu við BHM þar sem hann sneri út úr kröfugerð samtakanna og ásakaði þau um að vinna gegn jöfnuði í samfélaginu.“

Þetta sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag um stöðu kjaraviðræðna. Vísaði hann til ummæla Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, sem hann lét falla í þinginu í gær. Þar sagði hann meðal annars að það væri umhugsunarefni hvernig verkfallsvopninu hefði verið beitt með nýjum hætti í kjarabaráttu undanfarið þar sem grundvallarstoðir heilbrigðiskerfisins hefðu ítrekað verið teknar í gíslingu.

„Við þessar aðstæður er grafalvarlegt mál þegar formaður Sjálfstæðisflokksins, fjármálaráðherra sem fer með samningsumboð í kjaradeilum við viðsemjendur ríkisins fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, kemur í ræðustól Alþingis og hótar mönnum afnámi eða skerðingu á verkfallsrétti ef þeir hagi kröfugerð sinni með þeim hætti sem nú hefur verið gert. Það er mjög sérkennilegt að heyra fjármálaráðherra í miðri kjaradeilu tala niður verkfallsréttinn, það helga vopn, eins og hann gerði hér í ræðustól í gær,“ sagði Árni.

Frétt mbl.is: Grunnstoðir ítrekað í gíslingu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert