Fara fýluferðir í Landeyjahöfn

Unnið að sanddælingu
Unnið að sanddælingu mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Mistök ollu því að ekki var breitt yfir skilti Vegagerðarinnar við hringveginn sem vísar á Vestmannaeyjar um Landeyjahöfn í vetur. Vísunin er ekki rétt því Herjólfur hefur ekki siglt þangað í 150 daga í dag.

„Þetta voru hrein og klár mistök. Við höfum þegar breytt verklagi til að þetta gerist ekki aftur,“ sagði G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. Einnig hefði þurft að setja skilti við Þrengslaveg sem vísaði á Vestmannaeyjar um Þorlákshöfn.

Verið er að undirbúa að tilkynningar um ferðir Herjólfs verði framvegis hluti af tilkynningum Vegagerðarinnar um færð og veður.

Á samfélagsmiðlum hafa birst sögur af ferðamönnum sem hafa farið fýluferðir í Landeyjahöfn og komið þar að tómum kofunum. 

Í Morgunblaðinu í gær var rætt við Gunnlaug Kristjánsson, forstjóra Björgunar, varðandi Landeyjahöfn.

„Mér finnst alvarlegt að það sé enn verið að telja Vestmannaeyingum trú um að það sé hægt að halda Landeyjahöfn opinni yfir veturinn,“ sagði Gunnlaugur. Fyrirtækið annast nú dýpkun hafnarinnar samkvæmt samningi við Vegagerðina. „Í fyrra opnuðum við höfnina í byrjun mars en þá var einmunatíð. Það er ekki til sú aðferð í heiminum sem hefði getað haldið höfninni opinni í vetur. Þá er ég ekki bara að tala um fyrir Herjólf. Ég er líka að tala um nýja ferju. Þarna var 5-6 metra ölduhæð viku eftir viku. Af hverju er ekki komið dæluskip eða aðferð til að halda þessu opnu? Það er vegna þess að það er ekki til. Ég verð manna fegnastur ef það finnst aðferð til að halda höfninni opinni.“

Tvö dæluskip biðu í gær færis að komast í Landeyjahöfn, annað í Vestmannaeyjum og hitt í Þorlákshöfn, en ölduhæð var of mikil.

„Dýpið í hafnarmynninu er nú tveir metrar. Skip sem ristir 3,5 metra siglir ekki á tveggja metra dýpi, allra síst í tveggja metra öldu,“ sagði Gunnlaugur. Hann sagði að dæluskipinu Perlu hefði verið lætt inn í höfnina á flóði fyrir síðustu helgi og var reynt að dæla sandi út fyrir hafnargarð. Það er líklega fljótlegasta leiðin til að opna höfnina svo stærra sanddæluskip komist þar að.

„Menn ætla að eyða einhverjum milljörðum í smíði á nýjum Herjólfi. Hann mun aldrei geta siglt alla daga í Landeyjahöfn nema með einhverri stórkostlegri breytingu á höfninni,“ sagði Gunnlaugur.

Hann sagði menn hafa reynt að dæla sandi við Landeyjahöfn í miklum straumi og ölduhæð þar sem jafnvel brjóti á rifinu sem verið sé að dýpka. Áhafnirnar á sanddæluskipunum séu venjulegir íslenskir sjómenn en ekki hermenn. Það séu því takmörk fyrir því við hvaða aðstæður sé forsvaranlegt að láta þá vinna að dýpkun.

„Í mínum huga er það bara mildi að ekki hefur orðið stórslys þarna við þessar aðfarir,“ sagði Gunnlaugur.

Landeyjahöfn.
Landeyjahöfn. Pétur Pétursson
Herjólfur - Landeyjahöfn
Herjólfur - Landeyjahöfn Sigurður Bogi Sævarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert