Hafa ekki áhyggjur af lokun stæðanna

Byggingarreiturinn við Austurhöfn í Reykjavík er milli Geirsgötu og Tryggvagötu, …
Byggingarreiturinn við Austurhöfn í Reykjavík er milli Geirsgötu og Tryggvagötu, við hlið Tollhússins. Morgunblaðið/Rósa Braga

Framkvæmdastjóri Kolaportsins og eigandi Bæjarins beztu hafa litlar áhyggjur vegna lokunar 198 bílastæða við Tollhúsið. Bílastæðunum var lokað frá og með deginum í gær en framkvæmdaleyfi hefur verið veitt fyrir fornleifauppgreftri á svæðinu. Að honum loknum mun reiturinn fara í uppbyggingu og byggjast upp á næstu þremur árum.

„Þetta á eftir að koma í ljós, það er auðvitað slæmt að missa bílastæði á besta stað,“ segir Gunnar Hákonarson, framkvæmdastjóri Kolaportsins, í samtali við mbl.is.

Frétt mbl.is: Framkvæmdir að hefjast við Tollhúsið

Hann bendir á að mörg bílastæði séu í boði á svæðinu en meðal annars eru bílastæði undir Hörpu, í gamla Kolaportinu og undir Ráðhúsinu og  þá eru enn nokkur stæði á planinu sem ekki er búið að loka.

Gunnar segist ekki hafa áhyggjur af því að færri komi í Kolaportið vegna lokunarinnar. „Fólk þarf kannski að hafa aðeins fyrir því að átta sig á því hvar það getur lagt í staðinn,“ segir hann. Fyrsta helgin í Kolaportinu eftir lokun bílastæðanna er um helgina og þá kemur væntanlega betur í ljós hvort aðsóknin verði sýnilega minni.  

Guðrún Kristmundsdóttir, eigandi Bæjarins beztu, hefur ekki miklar áhyggjur af lokun bílastæðanna og bendir á að margir viðskiptavinir komi fótgangandi. Hún fagnar uppbyggingunni á svæðinu og telur að lokunin muni ekki draga úr viðskiptum.

Frétt Morgunblaðsins: Rútufyrirtæki kveður Kolaportsplanið

Margir viðskiptavinir Bæjarins bestu koma fótgangandi.
Margir viðskiptavinir Bæjarins bestu koma fótgangandi. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert