Efnisleg sóun vegna höfundaréttar

Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata.
Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata. Af vef Pírata

Búið er að fjarlægja eftirlíkingar af Cassina-húsgögnum úr ráðhúsi Reykjavíkur og flytja til förgunar. Nokkrir Píratar mættu til að mótmæla förguninni. Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, segist á móti henni en annað hafi ekki verið hægt lagalega. Hann vil breyta lagaumhverfi höfundaréttar.

Ítalskur framleiðandi húsgagnanna krafðist þess að þeim yrði fargað þar sem um eftirlíkingar væri að ræða. Húsgögnin hafa verið í ráðhúsinu við Tjörnina frá því að það var tekið í notkun. Halldór segir að fólk hafi mætt, setið á sófunum og lýst afstöðu sinni til þessa gjörnings þegar verið var að fjarlægja þau úr ráðhúsinu.

„Í prinsippinu er ég á móti því þó að annað hafi ekki verið hægt lagalega séð. Ég myndi vilja sjá lagaumhverfið öðruvísi að þessu leyti. Þarna er höfundaréttur farinn að valda ansi miklum ósveigjanleika á því hvernig er farið með efnisleg verðmæti. Hlutur sem er búinn til og er notaður sé bara fargað og ekki einu sinni hægt að nýta með neinum öðrum hætti það efni sem fór í gerð hans,“ segir Halldór. 

Samfélagið þurfi að ígrunda og ræða mörk höfundaréttarins

Hann telur að margt í málinu varpi ljósi á hvernig sóun verði til. Það sé jafnframt skólabókardæmi um ástæðu þess að Píratar leggi áherslu á endurskoðun höfundaréttar.

„Við erum náttúrulega ekki á móti honum í sjálfu sér en við leyfum okkur að setja út á ákveðin útfærsluatriði í honum og viljum fyrst og fremst vera í stöðugri umræðu um hver réttur hvers og eins á að vera í þessum efnum og hvað er hagfelldast fyrir samfélagið. Þarna er höfundarétturinn farinn út í það að efnislegum eignum er sóað,“ segir Halldór.

Djúpstæðar spurningar vakni um réttinn til að stjórna hvernig það sem fólk á höfundarétt á er nýtt af öðrum.

„Það er eitthvað sem samfélagið þarf að ígrunda og ræða,“ segir Halldór.

Fyrri frétt mbl.is: Píratar mótmæla förgun húsgagna

Húsgöngunum sem á að farga var safnað saman í ráðhúsinu …
Húsgöngunum sem á að farga var safnað saman í ráðhúsinu í dag. Af vef Pírata
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert