„Höfum séð þetta svo oft“

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor.
Gunnar Helgi Kristinsson prófessor. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ef skoðaðar eru kannanir yfir langt tímabil þá má sjá að það er alltaf einn af stjórnarandstöðuflokkunum sem rýkur upp einhvern tíma. Það er því kannski varasamt að lesa mikið annað í það en að óánægjan leiti alltaf eitthvert,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um nýjustu skoðanakannanir sem sýna Pírata sem stærsta stjórnmálaflokk landsins.

Gunnar segist hafa miklar efasemdir um að þorri þeirra sem segjast styðja Pírata hafi sérstaklega skýra mynd af því fyrir hvað þeir standi annað en til að mynda andstöðu við ríkjandi ástand og kerfið. „Við höfum í gegnum tíðina séð þetta svo oft. Síðan toppar kannski einhver á réttum tíma í kosningum. En það er ekki rétti tíminn til þess að toppa núna á miðju kjörtímabili,“ segir hann. Þar með sé hann ekki að fullyrða að núverandi fylgi geti ekki haldist hjá Pírötum að einhverju leyti en það sé einfaldlega of snemmt að fullyrða eitthvað í þeim efnum. Hins vegar bendi kannanirnar til langtímaþreytu með hefðbundnu flokkana.

„Stuðningur við ríkisstjórnina hefur náttúrulega verið á hraðri niðurleið. Það hefur verið mjög stabílt. Hún er komin á svipaðar slóðir og síðasta stjórn sem er varla gott fyrir hana. Það er svona róttækari og hvassari tónn í Pírötum en til dæmis í Bjartri framtíð sem er líka tiltölulega nýr flokkur. Það kann að vera einhver vísbending um harðari óánægju. En án þess að hafa einhver fyllri gögn um þetta er mjög vandasamt að rýna eitthvað meira í þetta en frekar yfirborðslega,“ segir hann ennfremur.

Gunnar ítrekað að áratugareynsla sé fyrir þróun sem þessari. „En sveiflurnar eru kannski að verða aðeins meiri og harkalegri og krappari.“

Fréttir mbl.is:

Píratar lang vinsælastir

Óánægjufylgi til Pírata, ekki öfgaflokka

Píratar á hraðri siglingu

Fáni Pírata
Fáni Pírata
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert