Enginn náttúrupassi en uppbygging brýn

Ferðamenn við Dettifoss.
Ferðamenn við Dettifoss. mbl.is/RAX

Samtök ferðaþjónustunnar lýsa yfir ánægju sinni með að ráðherra ferðamála hafi nú tekið þá ákvörðun að draga hugmyndir um náttúrupassa til baka. Eftir stendur hins vegar það brýna verkefni að byggja upp við fjölsótta ferðamannastaði. Margar náttúruperlur í landinu eru komnar að þolmörkum og því ljóst að aðgerða er þörf.

Þetta kemur fram í ályktun frá stjórn samtakanna.

Samtökin taka heilshugar undir tillögu ráðherra ferðamála þess efnis að uppbyggingin verði fjármögnuð í gegnum fjárlög. Slíkt fyrirkomulag er í samræmi við þá umsögn sem samtökin sendu frá sér í tengslum við frumvarp um náttúrupassa.

  „Ljóst er að ferðaþjónustan er orðin leiðandi atvinnugrein hér á landi. Greinin aflar þjóðarbúinu gríðarlegra tekna, skapar atvinnu, eflir byggðarlög um allt land og styður svo um munar við aðrar atvinnugreinar. Rétt er að geta þess að um næstu áramót mun ferðaþjónustan öll fara inn í virðisaukaskattskerfið og þannig tryggja ríkissjóði enn frekari tekjur af greininni,“ segir í ályktuninni.

Samtökin segja að framkvæmdasjóður ferðamannastaða sé best til þess fallinn að stuðla að nauðsynlegri uppbyggingu. Tryggja þurfi sjóðnum nægjanleg fjárframlög á þessu ári og því næsta þannig að hann geti sinnt hlutverki sínu.

Horfa verður til virðisaukandi þjónustu

Stjórn samtakanna segir að búa verði þannig um hnútana að hvers konar gjaldtaka fyrir virðisaukandi þjónustu á ferðamannastöðum sé valkostur sem hægt sé að ráðast í á næstu misserum. Nefna samtökin sérstaklega gjaldtöku vegna bílastæða, salernisaðstöðu o.s.frv. „Tryggja þarf, að sé ráðist í slíka innviðauppbyggingu á ferðamannastöðum verði möguleiki til þess, að sú fjárfesting skili sér til baka í notkunargjöldum. Öll slík þjónusta eykur gæði og þjónustustig og styrkir enn frekar upplifun ferðamanna sem sækja landið okkar heim.“

SAF telja að þeir fjármunir sem lagðir munu verða í mikilvæga uppbyggingu sé vel varið og skili sér margfalt til baka. „Samtökin styðja ráðherra ferðamála heilshugar í þessari vinnu, enda er mikilvægt að hlúa að náttúrunni í sátt við landsmenn alla,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert