Skilningsleysi á þörfum notenda

Svo virðist sem ákveðið skilningsleysi hafi verið á þörfum og sérstöðu notenda ferðaþjónustu fatlaðra hjá þeim innan Strætó sem áttu að koma að breytingum á þjónustunni um seinustu áramót.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um yfirtöku Strætó á ferðaþjónstu fatlaðra. 

Um síðustu áramót tók Strætó við rekstri ferðaþjónustu fatlaðra fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Brotalamir reyndust vera á framkvæmdinni og var loks ákveðið í febrúar að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gera úttekt á innleiðingu og framkvæmd ferðaþjónstunnar.

Fær yfirtakan harða útreið í skýrslunni sem var kynnt á eigendafundi Strætó bs. fyrr í dag. 

Þar segir meðal annars að stjórnun breytinganna á ferðaþjónustu fatlaðs fólks eftir að hin raunverulega innleiðing átti að hefjast hafi misfarist í stórum atriðum. Engum hafi verið falið að hafa yfirumsjón með breytingunum og samræma alla fleti breytinganna, bæði þá sem sneru að notendum ferðaþjónustunnar, starfsmönnum ferðaþjónustu fatlaðs fólks, starfsmönnum velferðarsviða sveitarfélaganna og starfsemi Strætó bs.

Aðkoma samráðshóps félagsmálastjóra að málinu strax á fyrstu stigum innleiðingar og ráðning breytingastjóra hefði verið til þess fallin að greiða fyrir farsælli innleiðingu með heildarhagsmuni að leiðarljósi.

Í skýrslunni segir einnig að stjórnendum Strætó bs. sem falið var hlutverk í ákveðnum þáttum breytinganna hafi yfirsést margt sem öflugur leiðtogi hefði mögulega komið auga á. Með uppsögnum allra starfsmanna í ferðaþjónustu fatlaðs fólks hjá Strætó bs. hafi glatast mikilvæg þekking á þörfum notenda og því hvernig best væri að mæta óskum þeirra.

Áratuga reynsla hefði verið fyrir borð borin með óljósum rökum um að nauðsynlegt væri að allir starfsmenn þjónustuvers ynnu heilsdagsstörf.

Eftirlit velferðarráða brást

Mikil áhersla hafi verið lögð á það strax í upphafi að sama fólkið í þjónustuveri svaraði fyrirspurnum varðandi almenningssamgöngur og ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Að mati innri endurskoðunar hefði vel mátt sameina þjónustuverin á sama stað í skrefum. Skipta fyrst í tvær einingar eftir starfsemi og nýta þannig áfram sérþekkingu þeirra sem höfðu um langt árabil unnið við ferðaþjónustu fatlaðra og taka í öðru skrefi til skoðunar sameiningu þjónustuvera almenningssamgangna og ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Eftirlit velferðarráða og velferðarsviða sveitarfélaganna á innleiðingartímanum brást, að mati innri endurskoðunar. Ekki var skilgreindur farvegur fyrir upplýsingar um verkefnin, sem Strætó bs. tók að sér samkvæmt þjónustulýsingu, og litlar upplýsingar bárust velferðarsviðum aðildarsveitarfélaganna. Kjörnir fulltrúar hafi ekki staðið vaktina með spurningum á vettvangi fagráðanna um framgang verkefnisins.

Keyrðar í gegn á miklum annatíma

„Upphafi nýrrar sameiginlegrar akstursþjónustu var valin slæm tímasetning þar sem breytingarnar voru keyrðar í gegn á miklum annatíma um síðustu áramót í stað þess að bíða fram á sumar, eins og raunar hafði verið bent á í aðdraganda breytinganna að væri heppilegast,“ segir einnig í skýrslunni.

Þó er bent á að sú vinna sem Strætó bs. lagði í með fulltrúum Öryrkjabandalagsins, Sjálfsbjörg og Þroskahjálp að skerpa á skilyrðum um öryggisatriði í bílum akstursþjónustunnar hafi verið árangursrík og aukið til muna öryggi farþega í ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Að mati innri endurskoðunar brást upplýsingamiðlun í innleiðingarferlinu og upphafi breytinga. Annars vegar upplýsingamiðlun til notenda þjónustunnar en hún hafi verið engin fyrr en rétt í þann mund sem breytingarnar voru að ganga í garð. Slíkt kalli á óánægju og geri fólk síður móttækilegt fyrir agnúum sem kunna að koma fram við breytingarnar sjálfar. Hins vegar hafi upplýsingar í aksturskerfinu um notendur ekki verið nægilega traustar og góðar þegar þjónustunni var breytt 1. janúar síðastliðinn.

Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin.
Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert