Stóráfallalaus nótt á bráðamóttöku

Landspítali-háskólasjúkrahús í Fossvogi.
Landspítali-háskólasjúkrahús í Fossvogi. Morgunblaðið/Ómar

Nóttin gekk stóráfallalaust fyrir sig á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í nótt en vegna verkfalls hjúkrunarfræðinga var Hjartagáttin lokuð í nótt. Svanur Sigurbjörnsson, sérfræðilæknir á bráðamóttöku, segir það hins vegar tímaspursmál hvenær alvarleg mál koma upp.

Svanur segir að vegna lokunar Hjartagáttarinnar þá verði  einstaklingar með bráð hjartavandamál að leita á bráðamóttökuna. Á móti komi að einn læknir komi til starfa af Hjartagáttinni á bráðamóttökuna að degi til en ekki á kvöldin og á nóttunni.

Þrátt fyrir að nóttin hafi gengið vel þar sem fáir hafi leitað á bráðamóttökuna fer fljótlega að reyna á þar sem ekki er hægt að leggja sjúklinga inn á deildir sjúkrahússins.

Verkfall Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hófst á miðnætti og gert er ráð fyrir að það verði enn frekari röskun á starfsemi spítalans en þegar er orðin vegna verkfalla félaga í BHM. Almennt gildir að bráðatilvikum er sinnt venju samkvæmt á Landspítala en búast má við að biðtími á bráðamóttöku fyrir þá sem hafa minni háttar áverka eða veikindi geti lengst. 

Nokkrar dag- og göngudeildir munu lokast eða starfsemi þeirra skerðast verulega og er því beint til fólks sem á erindi á slíkar móttökur að leita upplýsinga um stöðu mála, segir á vef Landspítalans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert