Haftafrumvarpið ekki í þessari viku

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra Ómar Óskarsson

Frumvarp um losun hafta hér á landi mun að öllum líkindum ekki vera lagt fram í þessari viku, en Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, segir að frumvarpið muni eftir sem áður líta dagsins ljós á næstu dögum. Áður hafði Bjarni sagst vonast til þess að frumvarpið kæmi í þessari viku.

Bjarni var gestur á ársfundi Fjármálaeftirlitsins (FME) og fór hann þar stuttlega yfir þau málefni sem unnið hefur verið að undanfarið ár og tengjast eftirlitinu, auk þess sem hann fór yfir framtíðarhorfur. Sagði hann að FME myndi skipta talsverðu máli við losun hafta, en með því að draga úr höftum myndi frjálst flæði fjármagns aukast og það kalli á að FME fylgist vel með ef það verða skyndilegar breytingar.

Samhliða haftalosun gæti eignarhald bankanna breyst

Þá nefndi hann væntanlegar breytingar á eignarhaldi stóru bankanna og átti þar við Íslandsbanka og Arion, en Bjarni sagði að samhliða losun gæti orðið breyting á eignarhaldi þeirra. Nauðsynlegt væri að fá eigendur að bönkunum sem samrýmast hinni almennu löggjöf og að komast út úr því bráðabirgðaástandi sem er núna.

Aðspurður um hvort þessum auknu verkefnum muni fylgja aukið fjármagn sagði Bjarni að stofnunin hefði verið styrkt talsvert á undanförnum árum og þá væri nokkuð umliðið síðan eftirlitið kláraði síðustu hrunmálin og það hafi létt á eftirlitinu. Sagðist hann ekki gera ráð fyrir sérstakri innspýtingu, en þá væri einnig ljóst að ekki væri hægt að skera niður.

Hefur ekki áhyggjur af fjármálastofnunum við losun hafta

Í erindi forstjóra FME á fundinum var meðal annars farið yfir eiginfjárstöðu viðskiptabankanna. Hún var í árslok 2014 um 26%, eða um tvöfalt meiri en eiginfjárstaða samanburðahóps banka erlendis. Aðspurður hvort Bjarni teldi stöðu bankanna hér á landi nægjanlega sterka til að mæta mögulegum sveiflum af losun hafta sagði hann svo vera. „Vinnan hefur gengið út á að lágmarka sveiflurnar og gera kleift fyrir slitabúin að greiða út til kröfuhafa samhliða efnahagslegum stöðugleika. Þannig að ég hef ekki áhyggjur af stöðu fjármálafyrirtækja í tengslum við haftalosun,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert