Helstu vandamálin undir lok mánaðarins

Gunnar H. Hall, fjársýslustjóri ríkissins fyrir miðju.
Gunnar H. Hall, fjársýslustjóri ríkissins fyrir miðju. mbl.is/Ómar

„Það sem þetta snertir ekki síst er skil á staðgreiðslu til sveitarfélaganna, ríkið innheimtir og skilar daglega til sveitarfélaganna sínum hluta,“ segir Gunnar H. Hall, fjársýslustjóri hjá Fjársýslu ríkisins vegna yfirvofandi verkfalls hjá stofnuninni sem hefst að öllu óbreyttu á miðnætti.

„Þetta eru háar upphæðir en í þessu samhengi eru þetta tiltölulega litlar fjárhæðir fyrri hluta mánaðarins en um miðjan mánuðinn kemur há upphæð sem getur verið 10-12 milljarðar. Þetta mun bitna á sveitarfélögunum og það má búast við að þetta fari að taka í um miðjan mánuðinn hjá þeim.“

Starfsmenn Fjársýslunnar fóru í tímabundið verkfall í apríl og var þá veitt undanþága til greiðslu barnabóta. Næsta greiðsla barnabóta er hins vegar ekki fyrr en í apríl og þarf því verkfallið að dragast töluvert á langinn til þess að það komi til skoðunar. 

Greiðsla launa verður heldur ekki vandamál að sögn Gunnars. „Við greiðum laun ríkisins en verkfallið truflar það ekkert. Launastarfsmenn eru mjög margir í hinu félaginu, félagi starfsmanna stjórnarráðsins en síðan erum við líka með undanþágur varðandi fólk sem starfar í launaafgreiðslu. Þær undanþágur eru alltaf í gangi. 

Vandamál sem gæti komið upp í verkfallinu er aftur á móti greiðsla rafrænna reikninga. „Reikningar á pappír verða ekkert vandamál en annað á við um rafræna reikninga. Reikningur sem kemur inn rafrænt á að streyma liðugt í gegnum kerfið en ef hann strandar þá verður hann alveg stopp. Þá þarf tæknimann til þess að finna út úr því og það stöðvast í verkfallinu,“ segir Gunnar. 

Vandamál við álagningu á einstaklinga

Ef verkfallið dregst út mánuðinn segir Gunnar að fleiri vandamál kunni að koma upp sem geta verið öllu alvarlegri. „Það tengist álagningu opinberra gjalda. Undir lok mánaðar fer fram undirbúningsvinna við álagningu opinberra gjalda á einstaklinga í samstarfi við ríkisskattstjóra þar sem innheimtu- og álagningakerfin eru tengd saman. Það getur orðið erfitt ef verkfallið dregst á langinn.“

Í tilkynningu frá Sýslumannsembættunum og tollstjóra í gær kom fram að verkfallið mun hafa áhrif á greiðsluseðla sem verða ekki sendur út. Eru það meðal annars seðlar vegna álagningar tekjuskatts, eignaskatts, tryggingagjalds, þungaskatts og skattsekta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert