„Fólkið bíður bara heima í óvissu“

Landspítalinn er nú rekinn með lágmarksþjónustu.
Landspítalinn er nú rekinn með lágmarksþjónustu. mbl.is/Árni Sæberg

Verkfall hjúkrunarfræðinga hefur nú staðið yfir í rúma viku. Af 2100 félagsmönnum sem lögðu niður störf starfa 1500 þeirra á Landspítalanum. Um 500 félagsmanna verða áfram í vinnu til þess að tryggja ör­yggi sjúk­linga sam­kvæmt und­anþágulist­um sem fyr­ir liggja.

Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, Sigríður Gunnarsdóttir, segir ástandið alvarlegt og að það leggist mjög þungt í fólk.

„Þetta veldur fólki auðvitað miklum áhyggjum og staðan er mjög erfið. En hinsvegar hefur framkvæmd verkfallsins gengið ótrúlega vel og það eru nokkrir samverkandi þættir sem hafa áhrif þar á,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is.

Ekki sami spítali og venjulega

„Í fyrsta lagi erum við ekki sami spítali og við erum vanalega. Við höfum dregið okkur saman í það að sinna aðeins bráðaþjónustu. En þá erum við auðvitað mjög áhyggjufull yfir því hvað bíður,“ segir Sigríður og segir að það verði ærið verkefni að leysa úr biðlistum þegar verkföllin eru yfirstaðin. „Þetta eru biðlistar sem eru alveg gríðarlega langir, þunginn er mestur þar. Fólkið bíður bara heima í óvissu.“

Hún segir að þar að auki hefur dregið úr aðsókninni á sjúkrahúsið, sérstaklega fyrstu daga verkfallsins. Aðspurð hvort að það gæti þýtt að fólk sitji frekar heima en að fara á sjúkrahúsið segir Sigríður það mögulegt. „Maður hefur áhyggjur af því að fólk sé að halda aftur að sér með að koma. Við viljum ekki að fólk sé að taka slíka áhættu telur það sig þurfa að vera hér.“

Jafnframt segir Sigríður að samstarfið við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hafi gengið mjög vel og hefur undanþágunefnd félagsins veitt undanþágur til þess að sinna því sem brýnast er.

Fjögur verkföll í gangi

„En svo má ekki gleyma því að það eru fjögur önnur félög í verkfalli og þau sem hafa verið lengst eru búin að vera í verkfalli í átta vikur. Þetta reynir allt gríðarlega á bæði þá sem eru í verkfalli og þá sem þurfa að manna vaktirnar á undanþágum. Fólk hefur áhyggjur af sínum skjólstæðingum,“ segir Sigríður. 

Að sögn Sigríðar hefur stærstur hluti undanþágubeiðna verið samþykktur af nefndinni. „Það eru allir aðilar að reyna að reka þetta á ábyrgð,“ segir hún. „Það bíða allir og vona að verkfallið verði leyst sem fyrst og gengið frá samningum við öll þessi félög þannig við getum aftur farið að sinna okkar daglegu störfum og þessu gríðarlega mikilvæga starfi sem hér er sinnt.“

Þakka fyrir hvern dag sem gengur þokkalega

Nú hefur verkfall hjúkrunarfræðinga staðið yfir í sjö daga eða frá miðnætti 27. maí s.l.. Sigríður segir að það hafi komið sér á óvart hversu lengi verkfallið hefur getað gengið.

„Ég átti ekki von á því að þetta myndi standa svona lengi og ég vonaði svo sannarlega að það myndi ekki standa svona lengi. En ég held að við þökkum öll fyrir hvern dag sem gengur þokkalega,“ segir Sigríður.

„Þetta er gríðarlega umfangsmikil og flókin starfsemi og margt óvænt sem gerist á venjulegum degi. Það eru margir óvissuþættir sem tengjast þessu verkfalli líka vegna þess hversu víðtækt það er í heilbrigðisþjónustunni. Við grátum það bara að geta ekki sinnt öllum okkar skjólstæðingum og veita alla þá þjónustu sem við annars værum að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert