Hjúkrunarfræðingar tilbúnir að fara

Hjúkrunarfræðingar í bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi.
Hjúkrunarfræðingar í bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fjölmargir íslenskir hjúkrunarfræðingar íhuga að segja starfi sínu  á Landspítalanum lausu ef lög verða sett á verkfall hjúkrunarfræðinga sem hófst fyrir fimmtán dögum síðan. Norðurlöndin heilla marga hjúkrunarfræðinga en þar er hægt að fá margfalt hærri laun fyrir minni vinnu.

Erla Björg Guðlaugsdóttir útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur í fyrra. Hún starfaði á sjúkrahúsi í Bergen í Noregi þegar hún var hjúkrunarnemi og íhugar nú að fara þangað aftur.

„Vinnan sjálf er mjög svipuð. En í Noregi eru fleiri tæki og tól sem krabbameinssjúklingar þurfa að komast í. Hér vantar margt en úti í Noregi eru allar græjur og mun betri aðstaða. Fólk þarf ekki að fara til útlanda til þess að fara í t.d. myndatökur eins og stundum hér á landi. Svo eru það náttúrulega peningarnir,“ segir Erla í samtali við mbl.is. Hún segir að hún hafi fengið tvöfalt hærri upphæð útborgaða í starfi sínu sem hjúkrunarnemi í Bergen en sem útskrifaður  hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum.

Betri aðstaða og hærri laun

Erla segir stemmninguna meðal hjúkrunarfræðinga ekki góða, sérstaklega eftir að fregnir af mögulegri lagasetningu fóru að berast. „Ég veit að nokkrar deildir hafa hist á fundum til þess að ræða framtíðina og hvað skal gera ef lög verða sett. Félagið má ekki hvetja okkur til þess að segja upp en auðvitað getum við hvatt hvort annað til þess.“

Erla telur að mjög stór hluti ungra hjúkrunarfræðinga sé nú alvarlega að íhuga að segja upp störfum sínum á Landspítalanum. „Ég tel að margir sem t.d. útskrifuðust með mér og eru barnlausir og ekki bundnir neinu séu að íhuga það að fara. Ég veit um nokkra sem hafa tekið ákvörðun um að fara til Norðurlandanna. Þar er almennt betri aðstaða og hærri laun,“ segir Erla en hún telur að bestu launin séu í Noregi.

„Þetta eru hærri laun fyrir svipaða vinnu en styttri vinnutíma. Úti í Noregi er vinnuvikan styttri, hjúkrunarfræðingar geta unnið 100% starf úti í Noregi, hér gerir það enginn því þá væri maður bara alltaf í vinnunni.“

Ekkert mál að fá starf á Norðurlöndunum

Erla er nú alvarlega að íhuga að fara aftur til Noregs, hugsanlega strax í haust. „Ég hika ekki við það ef það verða sett lög á þetta verkfall.“

Hún segir að það sé einnig algengt að hjúkrunarfræðingar fari til Norðurlandanna í kannski einn mánuð nokkrum sinnum á ári og þéni þar töluverðar fjárhæðir.

Erla segir að það sé ekkert mál fyrir íslenska hjúkrunarfræðinga að fá störf á Norðurlöndunum. „Það er mjög mikið sótt í okkur. Það er hringt og sendir tölvupóstar um að það vanti fólk hér og þar. Líka ef við myndum segja upp hérna væri enginn að fara í okkar störf hér. Ég held að fólk sé ekki hrætt við að það geti ekki farið aftur í sín fyrri störf.“

Spenna breyttist í vonbrigði

Hjúkrunarfræðinám á Íslandi er mjög krefjandi og tekur að jafnaði fjögur ár að klára. Aðspurð hvort að hún hafi séð það fyrir sér, sem hjúkrunarnemi, að hún myndi ekki hafa áhuga á því að starfa á Íslandi í framtíðinni svarar Erla því neitandi.

„Ég var mjög spennt að byrja að vinna. Þegar ég byrjaði í náminu vissi ég alveg að ég væri ekkert að fara í eitthvað hálaunastarf, ég gerði mér grein fyrir því. En svo fékk ég fyrsta launaseðilinn og varð fyrir vonbrigðum.“

Hún segir námið mjög krefjandi. „Þetta var meira nám en ég hélt. Núna eru líka komin inntökupróf þannig þetta er meira krefjandi en áður. En miðað við umræðuna er ég tilbúin að fara, sama hvað.“

Erla Björg er tilbúin að segja upp starfi sínu á …
Erla Björg er tilbúin að segja upp starfi sínu á Landspítalanum ef lög verða sett á verkfall hjúkrunarfræðinga. Ljósmynd úr einkasafni
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert