Týr óhaffær en gert við Þór

Skemmdir á varðskipinu Tý eftir áreksturinn.
Skemmdir á varðskipinu Tý eftir áreksturinn. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkrar skemmdir eru á varðskipum Landhelgisgæslunnar eftir að rússneska skólaskipið Kruzens­htern sigldi á þau í Reykjavíkurhöfn í gær. Áhöfn Kruzens­htern hefur samþykkt að dvelja áfram hér á landi þar til skýslutöku lýkur.

„Það var verið að taka seglskipið frá bryggju og snúa því hérna í bugtinni milli Miðbakka og Faxagarðs, og þegar þeir eru hálfnaðir með snúninginn tekur skipið aðeins áfram og stöðvar ekki í raun og veru, heldur fer bara beint áfram inn í síðurnar á varðskipnunum,“ segir Ásgrímur Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar. Hann var ekki viðstaddur en byggir á frásögn vitna og myndbandi sem birtist á mbl.is í gær.

Ásgrímur segist ekki vilja vera með getgátur um það af hverju skipið keyrði áfram, en segir að lögregla hafi verið kölluð til og skýrsla verið tekin af skipstjóra skólaskipsins og öðrum hlutaðeigandi.

En hvert er ástand varðskipanna?

„Það er ljóst að það eru töluverðar skemmdir á bæði Tý og honum Þór,“ svarar Ásgrímur. Hann segir tvö göt á Þór eftir bugspjótið á Kruzens­htern og töluverð dæld þar sem varðskipið skall á bryggjunni. Þá eru skemmdir fyrir innan götin og gengið til í innréttingu.

„Síðan á Tý er frammastrið brotið niður, skemmdir á síðunni þar sem stefnið á seglskipinu fór inn í, og það eru skemmdir á brúnni líka. Þannig að þetta er fljótt að telja. Þetta er allt eitthvað sem hægt er að gera við en það telur fljótt.“

Spurður að því hvort skipin séu sjófær í núverandi ástandi segir Ásgrímur að Týr sé í raun ekki haffær. Hins vegar standi viðgerðir yfir eftir að skipið snéri aftur úr Miðjarðarhafinu og þá fari það í slipp síðar í mánuðinum.

„Það sem við erum að gera í dag er að við erum að snúa honum Þór þannig að sú síða sem götin eru á snýr upp að bryggju og það er verið að fara í bráðabirgðaviðgerðir á því; loka götunum, s.s. sjóða fyrir. Og þar með er talið að Þór verði haffær,“ segir Ásgrímur.

Til stóð að Þór héldi í hefðbundið eftirlit við strendur landsins eftir helgi og segist Ásgrímur telja að sú áætlun muni standast.

Rannsóknarnefnd sjóslysa var kölluð til í gær og mun vinna skýrslu í samvinnu við lögregluna að sögn Ásgríms. Hann segir að áhöfn Kruzens­htern hafi fallist á að vera hér áfram á meðan frekari skýrslutaka stendur yfir hjá lögreglu.

Spurður að því hvort Kruzens­htern sé haffært, segir Ásgrímur að honum skiljist að svo sé.

seglskip

Rússneskt seglskip siglir á Varðskipin Týr og Þór í Reykjavíkurhöfn 11.júní 2015

Posted by Magnús Stefán Sigurðsson on Thursday, 11 June 2015

Frétt mbl.is: Myndband af árekstri skólaskipsins

Frétt mbl.is: Sigldi á skip Landhelgisgæslunnar

Frétt mbl.is: Rússneskt seglskip í Reykjavík

Skemmdir á Þór - götin eru augljós.
Skemmdir á Þór - götin eru augljós. mbl.is/Árni Sæberg
Skemmdir á varðskipinu Tý voru töluverðar.
Skemmdir á varðskipinu Tý voru töluverðar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert