Þöndu vélarnar fyrir heyrnarlausa

Davíð Bergmann Davíðsson ætlar ekki að hætta að mótmæla fyrr …
Davíð Bergmann Davíðsson ætlar ekki að hætta að mótmæla fyrr en fullum mannréttindum heyrnarlausra er náð. Af Facebook-síðu mótmælanna

Á annan tug bifhjólamanna kom saman fyrir utan Alþingishúsið í gær og mótmælti því að túlkasjóður heyrnarlausra væri uppurinn og þar með væru réttindi heyrnarlausra hér á landi skert. „Heyrnarlausir geta ekki látið í sér heyra en það gátu pústkerfin okkar,“ segir Davíð Bergmann Davíðsson, skipuleggjandi mótmælanna.

Í samtali við mbl.is segir Davíð heyrnarlausa lifa í „ósýnilega heiminum“ í íslensku þjóðfélagi og því hafi hann ákveðið að gera sitt besta til að vekja athygli á þeirra málstað, og því muni hann ekki hætta fyrr en heyrnarlausir öðlist full mannréttindi. 

Heyrnarlausir einangraðir í íslensku samfélagi

Davíð á heyrnarlausa systur og segist hafa orðið þess var að heyrnarlausir séu afar einangraðir í íslensku samfélagi. Kornið sem fyllt hafi mælinn var þegar hann hafi þurft að aðstoða systur sína við fasteignakaup. „Hún missti tvær draumaíbúðir á grundvelli þess að hún er fötluð,“ segir hann og heldur áfram: „Ég dreg þá ályktun því hún getur ekki farið í greiðslumat því túlkasjóðurinn er tómur.

Davíð segist hafa fengið algjörlega nóg. „Systir mín er fjölskyldukona sem á börn en hún verður komin á götuna 1. ágúst því hún er búin að selja ofan af sér.“

8-10 klukkustundir af túlkaþjónustu á ári

Heyrn­ar­laus­ir fá ekki end­ur­gjalds­lausa tákn­mál­stúlkaþjón­usta á tíma­bil­inu 25. maí til 30. júní vegna þess að fjár­magn sem ætlað er til að standa und­ir þjón­ust­unni er upp­urið. Davíð segir að í dag sé heyrnarskertum skammtað 8 til 10 klukkustundum af túlkaþjónustu á ári, og því sé það skítt að ná ekki einu sinni klukkutíma á mánuði.

„Hvernig myndir þú forgangsraða þínum mínútum af túlkun á mánuði? Skólaskemmtunina? Bankann? Erfðadrykkjuna? Skírn barnabarns? Brúðkaup dóttur þinnar? Íbúðarkaup?“

„Mér finnst þetta virkilega ljótt“

Davíð hefur verið fremstur í flokki mótmælenda og vakið athygli á þessu misrétti með táknrænum hætti síðustu daga. Hann mótmælti fyrir utan Alþingishúsið í síðustu viku með þrívíddargleraugu, bundið fyrir munninn og með heyrnatól. „Ég var með Iron Maiden og Slipknot í eyrunum svo ég heyrði ekki neitt og svo áttu þrívíddargleraugun að tákna það hvort ég gæti séð alþingismenn í réttu ljósi, því mér finnst þetta virkilega ljótt.“

Þá fór hann jafnframt og mótmælti í Norræna húsinu þar sem Fundur fólksins var haldinn og stjórnmálamenn og almenningur komu saman. „Ég fór upp á svið og gargaði hátt: „Hvers vegna buðuð þið ekki heyrnarlausum? Eru þau ekki fólk? Fjalla mannréttindi um peninga?““

„Mannréttindi fyrir heyrnarlausa“

Daginn eftir mætti Davíð að nýju með hóp heyrnarlausra í för með sér. Þar segir hann systur sína hafa gert einn flottasta gjörning sem hann hafi séð. „Hún stóð uppi á kassa og fór að tala við fólkið á táknmáli. Það var enginn sem túlkaði svo það skildi hana enginn. Hún var samt sem áður að segja mjög sára hluti um það hvernig það er að vera ekki hluti af samfélaginu.“

Loks mætti hann á mótmæli BHM og Félags hjúkrunarfræðinga á Austurvelli og keyrði fram hjá Alþingishúsinu á mótorhjóli með skilti á bak­inu sem benti á að túlka­sjóður heyrn­ar­lausra væri upp­ur­inn. Þandi hann hjólið vel svo eft­ir var tekið en þegar hann hafði lagt því hrópaði hann „Mann­rétt­indi fyr­ir heyrn­ar­lausa“ og var vel fagnað af mót­mæl­end­um. 

Hætta ekki fyrr en heyrnarlausir fá full mannréttindi

Davíð segist hafa áttað sig á að þetta næði ekki eyrum fólks og því ákvað hann að efna til hávaðasamra mótmæla sem myndu svo sannarlega gera það. „Ég ákvað að skora á allt bifhjólafólk til að sýna stuðning. Við mættum í gær og þöndum græjurnar fyrir utan Alþingi og fyrir aftan okkur stóðu heyrnarlausir með mótmælaskilti.“

Segist hann vera kominn með ógeð á framkomu yfirvalda í garð fatlaðs fólks sem séu orðnir annars flokks þegnar. „Þetta er ógeðslegt. Við erum með minnihlutahóp sem fær ekki full mannréttindi og það er ekki í boði í íslensku samfélagi,“ segir hann og heldur áfram: „Við hættum ekki fyrr en heyrnalausir og heyrnaskertir fá full mannréttindi á Íslandi.“

Flottir mótorhjólamenn að styðja okkur Davíð Bergmann Davíðsson

Posted by Guðrún Ólafsdóttir on Monday, June 15, 2015

Fyrri frétt­ir mbl.is um túlkaþjón­ust­una:

„Mannréttindi fyrir heyrnarlausa“

Heyrn­ar­laus­um ít­rekað mis­munað

„Fylgja þessu stress og von­brigði“

„Þetta er nátt­úru­lega drullu­fúlt“

Er ekki nóg að heyrnarlausir þurfa að lifa í þögn? …
Er ekki nóg að heyrnarlausir þurfa að lifa í þögn? Hver eru mannréttindi þeirra? Spyr Davíð. Af Facebook-síðu mótmælanna
Davíð á mótmælunum í gær.
Davíð á mótmælunum í gær. Af Facebook-síðu mótmælanna
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert