Vill segja upp samningnum við Sinnum

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.

Samningur ríkisins við fyrirtækið Sinnum, sem sér um rekstur sjúkrahótels í Ármúla, var mistök og réttast væri að slíta honum og að verkefni hótelsins verði færð aftur til spítalans. Þetta kemur fram í máli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans í Kastljósi í kvöld, en hann segir kostnað ríkisins vegna þjónustunnar hafa aukist á sama tíma og framboð rúma hafi dregist saman um 40%.

Farið var í útboð á þjónustunni árið 2011, en áður hafði Landspítalinn rekið sjúkrahótel á Rauðarárstíg. Sinnum átti lægsta tilboðið, en fljótlega eftir að rekstur hófst í húsnæðis Hótel Íslands í Ármúla fóru að berast athugasemdir. Í þættinum var meðal annars bent á athugasemdir Landspítalans og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Rætt var við forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, sem er samningsaðili fyrir hönd ríkisins, Steingrím Ara Arason. Kom í ljós að spítalinn og Sjúkratryggingarnar eru með mismunandi forsendur fyrir rekstrinum, en Sjúkratryggingar hafa harðlega mótmælt athugasemdum spítalans.

Á vordögum sauð svo upp úr þegar nýr samningur var gerður við Sinnum og fékk félagið aukið forræði yfir þjónustunni og átti auk þess að hafa umsjón með heilbrigðisumsjón. Eftir það hefur dregið stórlega úr fjölda þeirra sem geta nýtt sér þjónustuna og segir Páll að kostnaður ríkisins hafi aukist á sama tíma og þeir sem nýti sér þjónustuna hafi fækkað.

Þá hafa ýmis atriði komið upp sem sjúklingar og Landspítalinn hafa gagnrýnt, en meðal annars hafa miklar framkvæmdir verið við hótelið undanfarið og sagði einn sjúklingur að ómögulegt hefði verið að hvílast á meðan. Þá hafi hótelið aðeins getað tekið 2 gesti á sjúkrahótelið um mánaðarmótin maí-júní, þar sem það var uppbókað af ferðamönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert