Lokuðu göngunum í 13 mínútur

Hvalfjarðargöngum var lokað í 13 mínútur um áttaleytið í gærkvöld vegna þess að umferð gekk afar hægt sunnan Hvalfjarðar, þ.e. á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ. Starfsmenn Spalar vildu þannig koma í veg fyrir að bílar væru stopp í göngunum sjálfum á meðan þessi hægagangur varði. Þetta kemur fram á vef Spalar. 

Fjallað var um lokunina á mbl.is í gær.

Á vef Spalar segir ennfremur, að upphaf umferðartafanna hafi mátt rekja til Mosfellsbæjar og Kjalarness, sem hafði keðjuverkandi áhrif til norðurs. Afleiðingin var sú að röð myndaðist líka norðan Hvalfjarðar. Spölur tekur fram að engin flöskuháls hafi myndast í göngunum sjálfum.

Umferðin dreifðist betur um þarsíðustu helgi

Gríðarleg umferð var á Vesturlandsvegi í gærkvöld og því mátti búast við að raðir mynduðust tímabundið þegar flestir voru á ferðinni, eftir kl. 19.

Þá segir, að alls hafi 35.000 ökutæki farið um göngin á þremur sólarhringum um nýliðna helgi, þ.e. frá föstudegi til sunnudags. Þetta eru hátt í 12.000 ökutæki á sólarhring.

Helgina þar á undan var umferðin enn meiri, eða 38.000 ökutæki á þremur sólarhringum. Hins vegar dreifðist umferðin mun meira þá en nú og því mynduðust ekki raðir, að því er segir á vef Spalar.

Í gærkvöld voru mjög margir á ferðinni á sama tíma á leið til Reykjavíkur og þá mynduðust raðir fljótlega í Mosfellsbæ og á Kjalarnesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert