Endurskoða reglur um tryggingar barna

Stúlkan hlaut djúpan 2. stigs bruna á stórum hluta hægri …
Stúlkan hlaut djúpan 2. stigs bruna á stórum hluta hægri fótar. ljósmynd/Bryndís Erlingsdóttir

Tekin hefur verið ákvörðun um það innan velferðarráðuneytisins að endurskoða reglugerð sem snýr að daggæslu barna í heimahúsum. Ákvörðunin kemur í kjölfar frétta af tveggja ára gamalli stúlku sem slasaðist þegar heitt vatn hellt­ist yfir hana er hún var í um­sjá dagforeldris.

Mik­il umræða skapaðist eftir að fréttin­ um stúlkuna birtist í síðustu viku, og margir hafa velt því fyrir sér hvernig börn sín eru tryggð. Bryn­dís Erl­ings­dótt­ir, móðir stúlk­unn­ar, sagði að stór­lega þyrfti að bæta trygg­ing­ar og ör­yggi hjá dag­for­eldr­um en fjöl­skyld­an hef­ur eng­ar miska­bæt­ur fengið frá því slysið varð í fe­brú­ar á þessu ári.

„Við tökum þessu mjög alvarlega“

Ingibjörg Broddadóttir, félagsráðgjafi og staðgengill skrifstofustjóra í velferðarráðuneytinu, segir að nauðsynlegt sé að endurskoða reglugerðina. „Þetta atvik ýtti undir það og nú er búið að taka ákvörðun um að reglugerðin verði endurskoðuð,“ segir hún. „Við tökum þessu mjög alvarlega og ráðherra vill eindregið að farið verði í þessa vinnu.“

Þá hefur ráðuneytið óskað eftir greinargerð vegna málsins frá sveitarfélaginu Árborg.

Munu skoða hvað felst í tryggingunum

Í reglu­gerðinni kem­ur fram að dag­for­eldri skuli vera með slysa­trygg­ingu, en ekki er tiltekið nánar hvað skuli felast í henni. Sú trygging var sú eina sem dagforeldri litlu stúlkunnar sem slasaðist var með, en með slíkri trygg­ingu eru börn aðeins tryggð fyr­ir ör­orku eða dauða. Til að dekka slys af þessu tagi hefði dagforeldrið þurft að vera með sérstaka svokallaða frjálsa ábyrgðatryggingu, en engin ákvæði eru um slíka tryggingu í reglugerðinni.

Aðspurð um það hvort þessu verði breytt segir Ingibjörg að allar hliðar verði skoðaðar. „Það er ýmislegt í reglugerðinni sem við viljum gjarnan taka til skoðunar, til dæmis hvað felist í þessum tryggingum. Þetta verður allt skoðað og við erum byrjuð að kanna núna hvaða tryggingar dagforeldrar eru með.“

Reglugerðin, sem var gerð árið 2005, var sett með stoð í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga en verið er að endurskoða þau lög. Að sögn Ingibjargar mun nefndin sem vinnur við að endurskoða lögin einnig taka umræðu um daggæslu barna í heimahúsum og hlutverk félagsþjónustunnar hvað varðar umönnun þessa yngsta hóps.

Mikilvægt að finna annað fyrirkomulag eða styrkja þjónustuna

Dag­for­eldr­ar starfa sem sjálf­stæðir at­vinnu­rek­end­ur, en þurfa að fá leyfi hjá viðkom­andi sveit­ar­fé­lagi til að fá að starfa. Sveit­ar­fé­lögin sem hafa umsjón og eftirlit með starfsemi dagforeldra, eru skyldug til að fara eft­ir ákvæðum reglu­gerðarinnar sem kveður eingöngu á um skyldu dagforeldra til að kaupa slysatryggingu vegna barnanna, en fé­lög dag­for­eldra á hverj­um stað eða dag­for­eldr­arn­ir sjálf­ir geta eins og áður sagði keypt trygg­ing­ar um­fram þetta.

Stærstu félög dagforeldra hér á landi eru Barnið og Barnavistun sem bæði eru á höfuðborgarsvæðinu, en félagsmenn beggja félaga hafa ábyrgðatryggingu. Samtök dagforeldra á Suðurlandi, sem dagforeldri litlu stúlkunnar var í, tryggja félagsmenn sína þó ekki á þennan hátt.

Um tvö þúsund börn eru í daggæslu hjá dagforeldrum á ári hverju samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. „Dagforeldrar veita þjónustu og umönnun sem gerir foreldrum kleift að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Það má ekki gera lítið úr þeirri góðu vinnu en það þarf að styrkja betur þessa þjónustu eða finna annað fyrirkomulag,“ segir Ingibjörg að lokum.

Frétt mbl.is: Börn ekki nógu vel tryggð?

Frétt mbl.is: Eng­ar miska­bæt­ur eft­ir bruna barns

Ákvörðun var tekin um það í velferðarráðuneytinu að endurskoða reglugerðina.
Ákvörðun var tekin um það í velferðarráðuneytinu að endurskoða reglugerðina. mbl.is/Golli
mbl.is/Heiðar Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert