Hvað eru þessar hópmálsóknir?

Málið gegn Björgólfi verður rekið í gegnum málsóknarfélag.
Málið gegn Björgólfi verður rekið í gegnum málsóknarfélag. mbl.is/Kristinn

„Fyrirbærið hópmálsókn er í raun ekki til í íslenskum rétti,“ segir Sigurður Tómas Magnússon lagaprófessor við HR, en þrjár málsóknir stórra hópa Íslendinga hafa verið áberandi undanfarið. Þar er þó ekki endilega um eiginlegar „hópmálsóknir“ að ræða, eins og þekkjast víða í erlendum rétti að sögn Sigurðar.

Þannig eru tvö slík mál rekin í gegnum svokölluð málsóknarfélög, en slík félög komu fyrst fyrir með breytingu á lögum um meðferð einkamála árið 2010. Um er að ræða málsókn fyrrum hluthafa í Landsbankanum, mál íslenskra kvenna á hendur eftirlitsaðila með framleiðslu PIP brjóstapúða í Frakklandi og mál um hundrað einstaklinga gegn Vodafone vegna leka lykilorða og SMS skilaboða eftir að tölvuþrjótar komust inn í kerfi fyrirtækisins.

Vodafone-málið er það fyrsta sinnar tegundar hér á landi.
Vodafone-málið er það fyrsta sinnar tegundar hér á landi. mbl.is/Ómar

Skilyrðin nokkuð þröng

Hið síðastnefnda er fyrsta málið af þessu tagi hérlendis. Í lögunum má sjá að skilyrðin fyrir rekstri í gegnum málsóknarfélag eru þau sömu og fyrir málshöfðun á grundvelli svokallaðrar samlagsaðildar í 19.gr. laganna. „Þau eru að um sé að ræða kröfu á hendur sama aðila sem eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings,“ segir Sigurður. Að auki þurfa hins vegar félagsmenn að vera að lágmarki þrír.

Af dómaframkvæmd má ráða að skilyrðin um sama atvik, aðstöðu eða löggerning séu túlkuð nokkuð þröngt. Sigurður bendir á dóm Hæstaréttar í máli um Sjóð 9 hjá Glitni, þar sem því var hafnað að atvik væru þau sömu.

„Atvik að baki kröfu hvers þeirra eru hins vegar að öðru leyti mismunandi. Þannig munu hlutdeildarskírteini þeirra vera keypt á mismunandi tímum og þá eftir fyrirmælum hvers og eins þeirra. Kunna mismunandi atvik, sem varða hvern og einn þeirra sérstaklega, að hafa áhrif við mat á skaðabótaábyrgð varnaraðila á þeim grundvelli sem sóknaraðilar miða kröfu sína við,“ sagði m.a. í dómi Hæstaréttar um sameiginlega kröfu fyrrum eigenda skírteina í sjóðnum.

Félagsgjald í Björgólfsmáli

Lögmannsstofan Landslög sér um mál fyrir hönd fyrrum hluthafa í Landsbankanum á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni. Málið er rekið í gegnum málsóknarfélag og greiða þeir sem hyggjast taka þátt tiltekið gjald fyrir félagsaðild, en upphæðin fer eftir fjölda hluta sem aðilinn átti í bankanum. Þá greiða þeir einnig ákveðið hlutfall þeirra bóta sem kunna að fást verði bótaskylda Björgólfs viðurkennd.

Frá kynningarfundi fyrir hópmálsókn gegn Björgólfi Thor
Frá kynningarfundi fyrir hópmálsókn gegn Björgólfi Thor mbl.is/Árni Sæberg

Frétt mbl.is: Stefna Björgólfi í sumar

Í fréttatilkynningu um málsóknina sagði m.a. að „í málinu verði byggt á því að eftir brotthvarf Magnúsar Þorsteinssonar úr hluthafahópi Samson haustið 2005 hafi Björgólfur Thor með saknæmum hætti hindrað að hann yrði talinn tengdur aðili við bankann til þess að koma í veg fyrir að upplýst yrði um umfangsmiklar lánveitingar tengdar honum sem voru langt umfram heimildir bankans að mati fjármálaeftirlitsins.“

Mega bara vera málsóknarfélög  

Málsóknarfélög af þessum tagi mega hvorki vega hf né ehf að sögn Sigurðar, enda má ekki takmarka ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum félagsins. Þannig er félagið einungis stofnað til að reka mál fyrir dómstólum og má ekki starfa við annað.

„Stefnt er í einu lagi fyrir samanlögðum kröfum allra félagsmanna. Í stefnu þurfa kröfur félagsmanna hins vegar að vera sundurgreindar og ef einhver vill hætta í félaginu lækkar stefnukrafan sem því nemur,” segir Sigurður. Hann bendir á að talsvert hagræði sé af stofnun slíkra félaga, t.a.m. hvað varðar forræði á sakarefni og þegar kemur að áfrýjun eða fullnustu kröfu.

204 íslenskar konur höfðuðu mál gegn eftirlitsaðila með framleiðslu PIP …
204 íslenskar konur höfðuðu mál gegn eftirlitsaðila með framleiðslu PIP brjóstapúða í Frakklandi. AFP

Höfða brjóstapúðamál í Frakklandi

Árið 2013 ákváðu sex dreifingaraðilar og um 1.700 konur víða um heim að ráðast í eiginlega hópmálsókn (e. Class Action) á hendur TUV Rheinland, sem sá um eftirlit með framleiðslu PIP-brjóstapúðanna í Frakklandi. Þetta kemur fram í frétt BBC frá í fyrra. 204 íslenskar konur hafa höfðað mál á hendur Rheinland, en það verður tekið fyrir í frönskum undirrétti þann 24. júlí.

Frétt mbl.is: PIP-púðamál ís­lenskra kvenna tekið fyr­ir í sum­ar

Sigurður bendir á að talsverður munur sé á slíkum hópmálsóknum og málum í gegnum málsóknarfélög hérlendis. Þannig séu þau víða mjög sjaldgæf, enda nokkuð ströng skilyrði fyrir höfðun og þekkist t.d. í tilteknum löndum að umboðsmaður neytenda verði að höfða þau.

Fyrrnefnt mál um hundrað aðila gegn Vodafone gegnum málsóknarfélag vegna gagnalekans árið 2013 var fyrst tilkynnt í fyrra. Kom þá fram að kom fram að lágmarksupphæð sem krafist yrði væri 300 þúsund krónur, en hæstu upphæðirnar gætu farið upp í nokkrar milljónir. Enn er beðið niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar um málið að sögn Skúla Sveinssonar, lögmanns stefnenda og er það því á bið eins og stendur.

Frétt mbl.is: Munu krefja Vodafone um milljónir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert