Munu krefja Vodafone um milljónir

Rúmlega 100 manns taka þátt í hópmálsókn gegn Vodafone.
Rúmlega 100 manns taka þátt í hópmálsókn gegn Vodafone. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rúmlega hundrað manns munu stefna Vodafone í fyrstu hópmálsókn á Íslandi sem gerð verður í gegnum málsóknarfélag. Vodafone er stefnt vegna gagnaleka sem gerðist í fyrra þegar tölvuþrjótar komust t.d. yfir lykilorð og SMS skilaboð sem viðskiptavinir Vodafone höfðu sent. Mörg skilaboðanna voru persónuleg og er meðal annars stefnt vegna birtingar þeirra.

Skúli Sveinsson, lögmaður félagsins, segir í samtali við mbl.is að ekki sé enn komið í ljós hvenær málið verði lagt fyrir, en enn er beðið eftir niðurstöðu úr rannsókn Póst- og fjarskiptastofnunar sem ætlaði að taka til skoðunar umgjörð Vodafone í öryggismálum. Boðað hefur verið að niðurstöður þeirrar rannsóknar muni birtast í haust og segir Skúli að væntanlega verði málið kært eftir það.

Í frétt RÚV í dag kom fram að lágmarksupphæð sem krafist verður í skaðabætur fyrir hvern aðila sé 300 þúsund og staðfestir Skúli það í samtali við mbl.is. Hæstu upphæðirnar geta þó farið upp í nokkrar milljónir. Segir hann að sum mál séu alvarlegri en önnur og að það verði metið í hverju tilfelli fyrir sig.

Málsóknarfélagið var stofnað í febrúar á þessu ári og mun koma fram sem einn aðili gegn Vodafone í málinu. Að öðru leyti gilda almennar réttarreglur. Skúli segir að gerð verði ein krafa, en ekki sérkröfur fyrir hvern einstakling. Fáist skaðabætur verði þeim svo deilt niður út frá niðurstöðu og forsendum dómsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK