Hamingjusami kópurinn Dilla

„Hún er afar hamingjusöm,“ segir Stefanie Meier sem sér um kópinn Dillu sem tekinn var í fóstur í dýragarðinum Slakka. Hún dafnar vel og hefur nú þyngst um tæp 4 kíló frá því að garðurinn tók hana að sér. Dilla er glöð og finnst gaman að leika sér í lauginni sinni.

Dilla fær næringu ofan í maga úr slöngu þar sem sprautað er ofan í hana rjóma og söxuðum fiski. Hún er að læra að veiða sér til matar og hefur verið með fisk í tjörninni sinni til að æfa sig. Hingað til hefur Dilla einungis elt fiskinn og leikið sér við hann en von er á minni tegund af fiski sem er auðveldara fyrir hana að veiða og éta.  

Dillu finnst gaman að synda um í lauginni sinni.
Dillu finnst gaman að synda um í lauginni sinni. Ljósmynd/Stefanie Meier

 Stefanie telur að Dilla sé um eins mánaðar og viku gömul. Hún segir að væri Dilla úti í náttúrunni með móður sinni væri hún heldur ekki farinn að éta sjálf og því hafa þau enn sem komið er engar áhyggjur af henni. „Vanalega fara dýrin frá móður sinni á milli 4-6 vikna gömul og þá getur það tekið þau 2-3 vikur að læra að éta.“ Dilla er þó farinn að sýna merki þess efnis að hún sé í veiðihug, „ef við setjum hendurnar í vatnið og buslum reynir hún að bíta,“ segir Stefanie.

Fyrst um sinn tók það töluverðan tíma fyrir hana að stækka en nú þyngist hún um 250-300 grömm á dag sem er mjög gott að sögn Stefanie.

Hamingjusami kópurinn Dilla.
Hamingjusami kópurinn Dilla. Ljósmynd/Stefanie Meier

 Á nóttinni sefur Dilla inn í kofa en á daginn svamlar hún um í lauginni. Þar er hún með bolta sem hún leikur sér með og eltir. Þá eltir hún einnig á sér sporðinn og gerir ýmsar kúnstir. Laugin er nógu stór fyrir Dillu og segir Stefanie að þegar hún verði of lítil fyrir hana sé Dilla líklega tilbúin til að fara út í náttúruna. Hún þarf þó fyrst að læra að veiða sér sjálf til matar og þyngjast töluvert. Nú er stefnan sett á að sleppa henni út í náttúruna í lok ágúst en það fer þó allt eftir því hvernig Dillu vegnar. 

Dilla og Stefanie.
Dilla og Stefanie. Ljósmynd/Stefanie Meier

 Stefanie segir að Dilla sér orðin hættumeiri en í byrjun en það á þó eingöngu við þegar hún heldur að fólk sé með mat. Hún segir að það sé hægt að greina þá á henni hvort hún sé æst eða ekki. Þá eru gestir garðsins hvattir til að fara varlega í kringum hana og bannað er að snerta hana.

Töluverð aðsókn hefur verið í Slakka vegna Dillu og hafa gestir og gangandi áhuga á að sjá hana vaxa og dafna.

Dilla kann ýmsar kúnstir.
Dilla kann ýmsar kúnstir. Ljósmynd/Stefanie Meier

 Helgi Sveinbjörnsson starfmaður í dýragarðsins í Slakka leitar nú styrktaraðila til að fjármagna það að setja sendi á Dillu áður en henni verður sleppt út í villta náttúruna. „Hún er orðin frekar þekkt dýr og það væri gaman að geta fylgst með henni og vitað hvað verður um hana.“

Dilla er áhugasöm um myndavélina.
Dilla er áhugasöm um myndavélina. Ljósmynd/Stefanie Meier
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert