Birtu óvart nafn þess sem kvartaði

Póst- og fjarskiptastofnunar.
Póst- og fjarskiptastofnunar.

Í gær birti Póst- og fjarskiptastofnun fjórar ákvarðanir varðandi kvartanir sem höfðu borist vegna brota á fjarskiptalögum. Athygli vakti að í niðurstöðu eins málsins er birt nafn þess sem kvartaði. Kemur nafnið aðeins fram á einum stað í bréfinu, en á öðrum stöðum hafði nafn hans verið afmáð vegna trúnaðar. Í morgun hafði skjalið verið leiðrétt á heimasíðu stofnunarinnar þannig að nafn þess sem kvartaði var farið út.

Björn Geirsson, forstöðumaður og staðgengill forstjóra hjá Póst- og fjarskiptastofnun, segir í samtali við mbl.is að þetta hafi verið yfirsjón hjá félaginu og leiðrétt um leið og það komst upp. Hann tók þó fram að ekki væri um brot að ræða sem væri ámælisvert, enda væri stofnuninni frjálst að birta nafn þeirra sem kvarta, þó kosið hafi verið hingað til að afmá nöfn einstaklinga sem senda inn kvörtun. Þá segir hann að þeir sem sendi inn kvartanir geti óskað eftir nafnleynd.

Mbl.is ræddi við þann sem sendi inn kvörtunina og vissi hann þá ekki af mistökunum. Sagði hann að kvörtunin hefði verið send inn með það fyrir augum að henni fylgdi nafnleynd, en hann bæri samt engan kala til Póst- og fjarskiptastofnunar. „Svona getur gerst,“ sagði hann og bætti við að alltaf gætu orðið mannleg mistök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert