Búið að panta tæki fyrir Gullfoss

Gullni hringurinn, þar sem farið er að Gullfossi, Geysi og …
Gullni hringurinn, þar sem farið er að Gullfossi, Geysi og Þingvöllum, er afar vinsæll meðal erlendra ferðamanna. Rax / Ragnar Axelsson

Búið er að panta hjartastuðtæki sem komið verður fyrir á Gullfoss Kaffi eins fljótt og auðið er. Þegar eldri kona frá Þýskalandi hneig niður við veitingasöluna á laugardaginn var búið að beita hjartahnoði í hálftíma þegar lögregla kom á vettvang og höfðu læknar þá fyrst aðgengi að hjartastuðtæki sem lögregla á Suðurlandi hefur í öllum bílum umdæmisins. Ekkert tæki var á Gullfossi.

Gullni hringurinn, þar sem farið er að Gullfossi, Geysi og Þingvöllum, er afar vinsæll meðal erlendra ferðamanna og má ætla að flestir sem sækja landið heim komi við á þessum stöðum. Við góðar aðstæður er lögregla og sjúkralið um fjörutíu mínútur að komast að Gullfossi í neyðarakstri.

Verður að vera á fjölmennum stöðum

Á Geysi hefur verið hjartastuðtæki í nokkurn tíma. „Þetta er eitthvað sem verður að vera á svona fjölmennum stöðum,“ segir Lovísa Guðmundsdóttir, verslunar- og rekstrarstjóri Geysis. Starfsfólk sækir skyndihjálparnámskeið á hverju ári og eru þau bæði  haldin á íslensku og ensku. Á staðnum eru einnig þrjár stórar sjúkratöskur og festingar svo hægt sé að hífa sjúkling upp í þyrlu. 

Frétt mbl.is: Beittu hjartahnoði í hálftíma

Ástdís Kristjánsdóttir, rekstrarstjóri Gullfoss Kaffi, segir að ákveðið hafi verið að panta þegar í stað hjartastuðtæki eftir áfall helgarinnar. Ekki er víst að hægt hefði verið að bjarga lífi konunnar þrátt fyrir að hjartastuðtæki hefði verið á staðnum en atvikið er aftur á móti góð áminning um þörf slíks tækis. 

„Þetta er í fyrsta skipti sem verður dauðsfall á svæðinu vegna hjartaáfalls,“ segir Ástdís og bendir á að starfsfólkið á svæðinu sé aftur á móti mjög vel búið undir ýmis önnur slys og veikindi. Þá sækir starfsfólkið einnig reglulega skyndihjálparnámskeið.

Ekki stuðtæki í Ásbyrgi

Ekkert hjartastuðtæki er að finna á tjaldstæðinu í Ásbyrgi. Hjörleifur Finnsson, þjóðgarðsvörður á norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, segir málið hafa verið skoðað. Aftur á móti hafi þurft að forgangsraða í öryggismálum með tilliti til fjármagns og er tækið ekki næst á listanum heldur stendur til að efla TETRA-talstöðvakerfið á svæðinu. 

Hjörleifur segir að upp hafi komið nokkur tilvik í Jökulsárgljúfrum þar sem göngufólk hafi fengið hjartaáfall en ekki á tjaldstæðinu.

„Til þess að hjartastuðtækið virki sem skildi þarf það að vera frekar nálægt þeim sem fær hjartaáfall. Það myndi ekki nýtast inni í botni Ásbyrgis ef það væri staðsett á tjaldstæðinu, það tæki alltaf nokkurn tíma að koma því á staðinn,“ segir Hjörleifur.

Kosta á bilinu 200 til 500 þúsund krónur

Hjartastuðtæki ætluð almenningi kosta á bilinu 200 – 500 þúsund krónur. Mörg þeirra tækja sem eru til sölu hér á landi eru með íslensku viðmóti og leiðbeinir þeim sem notar tækið.

Ólafur Ingi Grettisson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og skyndihjálparkennari, segir tæki sem þessi ættu meðal annars að vera á fjölförnum ferðamannastöðum. Þar fara margir um og er stór hópur fólksins fullorðið fólk.

„Tæki sem þessi ættu að vera á stöðum þar sem gera má ráð fyrir hjartastoppi. Á fjölförnum stöðum, íþróttamiðstöðvum, sundstöðum, stórum verslunarmiðstöðvum og á ferðamannastöðum,“ segir Ólafur Ingi. Ekki er skylda að hafa hjartastuðtæki á stöðum líkt og sundlaugum en þó búa langflestar laugar yfir tæki sem þessu.

Tækið talar við þann sem notar það

Ólafur Ingi segir tækið þó vissulega ekki koma í staðinn fyrir hefðbundna endurlífgun. Um leið og búið er að greina meðvitundarleysi á þegar í stað að hafa samband við Neyðarlínuna (1-1-2) og láta nærsamfélagið vita, segir Ólafur Ingi. Þetta getur til dæmis átt við um gesti á ferðamannastað en starfsmenn þurfa að vita ef eitthvað óeðlilegt hefur komið upp á og gæti það haft aðgang að hjartastuðtæki.

Því næst þarf að byrja að beita hjartahnoði og síðan að beita hjartastuðtækinu þegar það kemur á staðinn. „Því fyrr sem hægt er að beita svona stuðtæki, því meiri eru lífslíkurnar,“ segir Ólafur Ingi. Lífslíkur sjúklinga í hjartastoppi minnka um 5-10% fyrir hverja mínútu sem líður frá áfallinu.

Þegar tækið er sett í gang byrjar það að tala og leiðbeina þeim sem notar tækið. Til að byrja þarf að fjarlægja föt á brjóstkassann og því næst líma límmiða á brjóstkassann. Þegar því er lokið biður tækið um að sjúklingurinn sé ekki snertur í dálitla stund en á meðan greinir tækið þörf á hjartastuði. „Það metur sjálft og velur hvaða sjúklingar eru stuðaðir,“ segir Ólafur Ingi. Sé tækið óvart tengt við einhvern sem ekki er í hjartastoppi neitar tækið að gefa stuð.

Geysir í Haukadal laðar sannarlega að margan ferðamanninn. Þar er …
Geysir í Haukadal laðar sannarlega að margan ferðamanninn. Þar er meðal annars að finna hjartastuðtæki. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert