Ósáttir við að fá engin gögn

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði Reykjavíkur gera alvarlega athugasemd við vinnubrögð borgarstjóra og formanns borgarráðs við ráðningu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs sem kynnt var í dag.

Segjast fulltrúarnir ekki hafa fengið að kynna sér gögn málsins auk þess sem málið hafi ekki verið á dagskrá fundarboðsins.

Fulltrúarnir féllust þó á miðvikudaginn á að málinu yrði bætt á dagskrá fundarins sem fór fram í gær en segjast þeir engin gögn hafa þá fengið um málið. Lögðu þeir þá fram bókun á fundi borgarráðs í gær þar sem vinnubrögðum meirihlutans var mótmælt. Formaður borgarráðs hafi þá neitað að taka við bókuninni og tók málið af dagskrá þrátt fyrir að það hefði verið til umræðu í drjúga stund á fundinum. Umsóknir um starf sviðsstjóra hafa legið fyrir frá 24. júní.

Var afgreiðslu málsins þá frestað í sólarhring svo fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gætu kynnt sér gögnin. 

„Ljóst er að í þessu mikilvæga máli hugðist borgarstjóri ganga gegn þeirri reglu að borgarráðsmenn fengju tíma til að kynna sér umfangsmikil gögn málsins. Slíkt sýnir að borgarstjóri lítur ekki á borgarráð sem stjórnvald, er tekur sjálfstæðar ákvarðanir, heldur stimpil sem hafi það hlutverk að staðfesta ákvarðanir sem hann hefur þegar tekið,“ segir í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

„ Við mótmælum harðlega flausturslegum og gerræðislegum vinnubrögðum borgarstjóra og formanns borgarráðs í málinu. Jafnframt óskum við eftir því að betur verði staðið að upplýsingagjöf í sambærilegum málum í framtíðinni svo borgarráðsfulltrúar geti sinnt því lögbundna hlutverki sínu að kynna sér gögn mála áður en þeir taka afstöðu til fyrirliggjandi tillagna. Nýjum sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs er óskað velfarnaðar í starfi,“ segir að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert