Mikill viðbúnaður vegna neyðarkalls

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Klukkan 13:17 heyrði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar neyðarkall á rás 16 í gegnum sendi við Höfn í Hornafirði. Engar upplýsingar liggja fyrir um hver sendir neyðarkallið en þyrla Landhelgisgæslunnar, björgunarskip  Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, lögregla og varðskipið Þór eru á leið á vettvang til leitar.

Ástæða neyðarkallsins er ekki ljós en einskis er saknað á þessu svæði, hvorki báta né ferðafólks. Verið er að leita í skálum og kanna ferðir skipa á svæðinu og þannig reyna að finna tilurð neyðarkallsins. Ef einhverjir hafa nánari upplýsingar eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa umsvifalaust samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í síma 545-2100 eða við lögreglu.

Uppfært 16:12

Björgunarskip Landsbjargar er komið á staðinn til leitar auk þyrlu Landhelgisgæslunnar. Varðskipið Þór er væntanlegt á staðinn síðar í kvöld.

Uppfært 16:45

Auðunn Kristinsson verkefnastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar segir í samtali við mbl.is að engin frekari merki hafi borist um að einhver sé í neyð staddur.

„Við höfum leitað undir Esjufjöllum og austur af Vatnajökli en ekkert fundið. Þá er lögregla ásamt björgunarsveitum búin að fara í neyðarskýli á svæðinu. Þyrlan er yfir sjónum út af Hornafirði, innan þess radíuss sem sendingin gæti hafa komið frá,“ segir Auðunn, en áætlað er að radíusinn sé í kringum 30 til 40 mílur frá Hornafirði. Hann nær því alveg jafnt út á sjó sem inn til landsins.

„Þór er á leiðinni austur en ef þyrlan verður einskis vör næsta einn og hálfa tímann eða svo þá hugsa ég að við drögum úr viðbúnaðinum. Það er einskis saknað, enga báta vantar og búið er að fara yfir öll okkar kerfi.“

Engu að síður var um skýrt neyðarkall að ræða. „Það kom tvisvar fram „Mayday, mayday“ hátt og snjallt. Engin staðsetning fylgdi skilaboðunum eða upplýsingar um hver væri í neyð. Hugsanlega er þetta því einhver að hrekkja okkur en við vitum það ekki. Við ætlum að leita af okkur allan vafa fram undir kvöldmat.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert