Skaðar ímynd Íslands út á við

Rútufyrirtækin stunda það ekki að láta ferðamenn svara kalli náttúrunnar …
Rútufyrirtækin stunda það ekki að láta ferðamenn svara kalli náttúrunnar úti á víðavangi að sögn Þóris Garðarssonar, stjórnarformanni Grayline. mbl.is/Ómar

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður hópferðabílafyrirtækisins Grayline, segir umræðuna um ferðamenn, sem gera þarfir sínar úti á víðavangi, vera farna að skaða ímynd Íslands út á við. Umræðan er á villigötum að hans mati, sérstaklega þegar verið er að velta vandamálinu yfir á hópferðabílafyrirtækin. Tæplega 40 prósent ferðamanna ferðast með hópferðabílum hérlendis en um 50 prósent á bílaleigubílum, segir hann.

Frétt mbl.is: Pissa í hvert skúmaskot á Íslandi

Hvernig ferðamenn svara kalli náttúrunnar hérlendis hefur verið nokkuð til umræðu í fjölmiðlum að undanförnu og er nokkra gremju í garð ferðaþjónustunnar að finna hjá hóp Íslendinga.

Aðspurður hvort Íslendingar séu að snúast gegn ferðaþjónustunni í ríkari mæli segir Þórir að alltaf þurfi að gæta að þolmörkum, sama hvort um sé að ræða náttúru eða íbúa. Hann segir að Íslendingar séu þó fyrst og fremst ósáttir við að fjölgun ferðamanna hafi ekki fylgt uppbygging innviða, og þar þurfi því að gera betur.

„Það er verkefni sem ferðamálayfirvöld verða að taka sig saman um að finna lausn á,“ segir hann og bætir við að með uppbyggingu innviða minnki óánægja með ferðaþjónustuna. Þórir segir að könnun sem Höfuðborgarstofa lét gera hafi leitt það í ljós að íbúar höfuðborgarinnar væru almennt umburðarlyndir gagnvart ferðamönnum, en að eins hafi komið fram í könnuninni að íbúar töldu almennt aðra borgara vera svartsýnni.

Stunda ekki að láta ferðamenn svara kallinu úti á víðavangi

Þórir segir hópferðabílafyrirtæki ekki stunda það að láta ferðamenn svara kalli náttúrunnar úti á víðavangi.

„Fyrirtækin stoppa þar sem menn fá sómasamlega aðstöðu. Það er ekki að frumkvæði bílstjóra eða fararstjóra að slíkur sóðaskapur eigi sér stað,“ segir Þórir en hann telur að staðan sem nú er uppi, sé ekki mjög frábrugðin því sem verið hefur undanfarin ár.

„Ég held að það sé verið að gera meira úr þessu en efni standa til, en þetta vekur vonandi stjórnvöld til umhugsunar. Þau þurfa að fara að girða sig í brók og stuðla að uppbyggingu innviða þannig að gestir geti gengið að sómasamlegri aðstöðu," segir hann.

Að sögn Þóris eru ferðamenn almennt tilbúnir að greiða fyrir aðgang að salernisaðstöðu, og segir hann að búið sé að byggja upp myndarlega salernisaðstöðu á Þingvöllum en á öðrum stöðum megi gera töluvert betur, t.d. á svæðinu við Gullfoss og við Seljalandsfoss.

Uppbygging salernisaðstöðu er þó ekki aðeins háð fjármagni, segir Þórir en einnig þarf til deiluskipulag á þeim svæðum þar sem byggja þarf slíka aðstöðu upp. Hann segir 850 milljóna króna fjárframlög ríkisstjórnarinnar, sem voru samþykkt í maí síðastliðnum, til uppbyggingar- og verndaraðgerða á ferðamannastöðum virðast skila sér rosalega seint til verkefna. 

Kostnaður fylgir uppbyggingu salernisaðstöðu

Aðspurður hvort hópferðabílafyrirtæki gætu tekið sig saman um að reka salernisaðstöðu á nokkrum stöðum um landið bendir Þórir aftur á að tæplega helmingur ferðamanna nýti sér akstur fyrirtækjanna, á meðan helmingurinn sé á bílaleigubílum.

Hann segir Grayline þó reka Hveravelli þar sem byggð hefur verið upp aðstaða fyrir ferðamenn. „Við settum þar upp aðstöðu og kostnaðurinn bara neðanjarðar, við rotþró og setlagnir, nemur yfir 20 milljónum króna.“

Hann segir að slík uppbygging ætti því frekar að vera á forræði ríkisins enda séu hér háir neysluskattar. „Að sjálfsögðu eiga ferðamenn að fá eitthvað til baka. Það eru ákveðnir innviðir sem eru á forræði ríkisins. Þú byggir fyrst salernið og rukkar síðan inn á það," segir hann.

Þórir segir náttúrupassann ekki hafa verið lausnina á þessu vandamáli. „Hvernig átti að standa að gjaldtökunni gekk ekki upp,“ segir hann en bætir við að margar hugmyndir varðandi náttúrupassann hefðu verið góðar.

Þórir segir að ferðaþjónustan bindi miklar vonir við að uppbygging innviða hefjist strax í haust þar sem vinna á ferðamálaáætlun Íslands sé langt á veg komin. Þá séu sveitarfélög einnig að taka til hendinni og deiliskipulag sé í vinnslu víða.

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Grayline.
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Grayline. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert