Þurfa „að skynja að þetta sé hægt“

Um 100 skip eru áætluð til Akureyrar í ár. Pétur …
Um 100 skip eru áætluð til Akureyrar í ár. Pétur segir að tekjur af komum þessara skipa séu áætlaðar um 2 milljarðar.

Ágóði af komu skemmtiferðaskipa hefur verið talaður niður undanfarin ár en raunin er sú að þau skila mun meiru til samfélagsins en menn halda. Það eru ekki bara hafnargjöld sem eru innheimt, því gestir skipanna eru duglegir að fara í allskonar dagsferðir um landið og stoppa við á kaffihúsum og minjagripaverslunum.

Þetta segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnarsamlags Norðurlands, en hann tekur jafnframt undir með forsvarsmönnum nokkurra sölu- og umboðsfyrirtækja sem segja að sala á vistum til skipanna sé ört stækkandi markaður sem kalli þó á langtímahugsun og uppbyggingu viðskiptasambanda.

Þurfa að keppa við stór vöruhús skipafélaganna

„Ef menn geta boðið gott verð, gæði og magn þá er ég sannfærður um að skipafélögin muni eiga viðskipti við íslensk fyrirtæki,“ segir Pétur, en í gær fjallaði mbl.is um að íslensk fyrirtæki væru í auknum mæli farin að selja útgerðum skipanna íslenskan kost. Pétur segir að sú samvinna sem hafi verið ýtt úr vör undir merkjum Flavour of Iceland sé af hinu góða, en það sé algjörlega sölufyrirtækjanna að plægja þennan markað og í raun hafi komið í ljós smá veikleiki að hafa ekki byrjað fyrr að sækja á þennan markað.

Pétur segir að skipafélögin reki jafnan stór vöruhús úti í heimi og þau kaupi oft vörur á hagstæðum kjörum og dreifi um allan heim. Íslensk fyrirtæki þurfi að vera tilbúin að keppa við þessi kjör til að fá viðskipti og segist hann vona að þetta framtak fyrirtækjanna á bak við Flavor of Iceland muni skila því. Þá segir hann að áreiðanleiki sé mikilvægasta atriðið fyrir þessi stóru skip.

Þurfa „að skynja að þetta sé hægt“

Til að byggja upp viðskipti þarf að sögn Péturs að vinna heimavinnuna vel og átta sig á að í stórum viðskiptum sem þessum þá sé ekkert til sem heitir spretthlaup, heldur eru samskiptin í formi langhlaups. „Það þarf að láta kúnnann skynja að þetta sé hægt hér, í föstum skorðum og ekkert má út af bregða,“ segir hann.

Mest sala á vistum er að sögn Péturs í Reykjavík, en hann telur að þrátt fyrir það geti einnig orðið einhver sala fyrir norðan og horfir hann sérstaklega til íslenskrar neysluvöru. Bendir hann á að nú þegar sé áætlað að tekjur vegna skemmtiferðaskipa á Norðurlandi séu um 2 milljarðar á ári, en þangað koma um 100 skip í ár. Segir Pétur að þetta skiptist niður í hafnargjöld, rútukostnað, leiðsögumenn, verslun í minjagripaverslunum og aðra þjónustu. Stærstu skipin eru með allt að 3 þúsund farþega og því getur það haft talsverð áhrif þegar komið er til Akureyrar eða á fámennari staði.

Frétt mbl.is: Skemmtiferðaskipin óplægður akur

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnarsamlags Norðurlands.
Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnarsamlags Norðurlands. Mynd/Pétur Ólafsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert