Mögnuð mynd af lífsbaráttu hafarnarins

mbl.is/Gyða Henningsdóttir

Það er þolinmæðisverk að ná mynd, eins og þessari sem hér sést af haferninum, eins og Gyða Henningsdóttir ljósmyndari fékk að reyna í fyrradag. Hún og eiginmaður hennar, Einar Guðmann, sitja um hreiðrin dag eftir dag, allt upp í fjórtán tíma samfleytt, saman á óþægilegum kollum í litlu felulituðu einmenningstjaldi. Biðin er til þess að fá stuttan glugga, kannski þriggja sekúndna langan, þegar hægt er að mynda örninn að færa ungunum mat. Hann veiðir ekki á hverjum degi og þegar hann fiskar ekki gildir hið sama um þau.

Hægt er að fylgjast með þeim á síðunum gyda.is og gudmann.is. Einar segir að myndataka við arnarhreiður sé háð sérstöku leyfi og er unnin í samstarfi við Náttúrufræðistofnun.

Haförn með unga
Haförn með unga Ljósmynd/ Einar Guðmann

Aðspurð um hvað fái fólk til þess að gera þetta segir Gyða það fyrst og fremst áhugann á ljósmyndun sem laði þau að. „Það hjálpar líka til, sérstaklega í þessari löngu yfirlegu yfir haferninum, að við erum í þessu saman. Það munar miklu um það. Maður gæti þetta, held ég, ekki aleinn.“

Ungarnir gæða sér á heimsendum matnum.
Ungarnir gæða sér á heimsendum matnum. Ljósmynd/Einar Guðmann

Blaðamaður spyr hvort það taki ekki á sambandið að sitja svona lengi yfir þessu og Gyða neitar því ekki. „Það tekur vel á. Það er þröngt um okkur svo það er eins gott að það sé gott samkomulag í tjaldinu. Sem betur fer er ég ekki há í loftinu svo það fer ekki mikið fyrir mér, a.m.k. stærðarlega séð,“ segir Gyða og hlær. „En þetta tekur vel á.“

Náttúruljósmyndun er ekki eina viðfangsefni Gyðu, en dags daglega vinnur hún sem rekstrarstjóri Levi's- og Benetton-verslana á Akureyri. „Sumum finnst maður stórfurðulegur að standa í þessu.“

Þau hjónin leggja mikið upp úr því að ljósmyndunin sé eins ekta og mögulegt er. Hún tæki það ekki í mál t.d. að mynda handfóðraða erni eins og gert er sums staðar. „Þetta þarf að vera alvöru, annars telur það ekki.“ 

Tjaldið sem Gyða og Einar nota við myndatökurnar.
Tjaldið sem Gyða og Einar nota við myndatökurnar. Ljósmynd/ Einar Guðmann
Gyða og Einar í tjaldinu.
Gyða og Einar í tjaldinu. Ljósmynd/ Einar Guðmann
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert