Eru allir velkomnir allstaðar?

Þessi fáni hangir á svölum í La Barceloneta-hverfinu í Barcelona …
Þessi fáni hangir á svölum í La Barceloneta-hverfinu í Barcelona og á honum stendur: Engin túristabúð. Til borgarinnar koma 27 milljónir ferðamanna á hverju ári. AFP

Hvenær eru ferðamenn orðnir of margir? Hvernig eigum við að bregðast við slæmri umgengni ferðamanna? Hvað getum við gert til að fá ferðamenn sem eru tilbúnir til að eyða meiri peningum? Felur aukin gjaldtaka í sér að mismuna ferðamönnum á grundvelli fjárhags?

Það er ekki bara á Íslandi þar sem ferðamönnum hefur fjölgað og margar spurningar vaknað í kjölfarið, það sama hefur gerst víða um heim. Sífellt fleiri ferðast á milli landa og áfangastaðir eru misvel í stakk búnir til að taka á móti auknum fjölda. Sums staðar hafa komið upp hugmyndir um að takmarka fjölda ferðamanna og annars staðar er rætt um að koma upp gjaldhliðum við vinsæla staði.

Samkvæmt tölum Alþjóðaferðamálastofnunarinnar, UNTWO, voru tekjur af alþjóðlegri ferðaþjónustu á síðasta ári 1.500 milljarðar Bandaríkjadala. Í fyrra jukust ferðalög fólks á milli landa um 4,7% og var rúmlega 1,1 milljarður ferða farnar á milli landa það árið. Stofnunin birti nýverið tölur fyrir fyrstu fjóra mánuði þessa árs sem sýna að 332 milljónir ferða voru farnar, sem er 4% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem er í einna mestum vexti í heiminum og samkvæmt UNTWO tengist eitt af hverjum 11 störfum greininni. Hún hefur skipt sköpum fyrir efnahag verr staddra Evruríkja í Suður-Evrópu, einkum eftir arabíska vorið því eftirmálar þess hafa orðið til þess að auka straum fólks til Suður-Evrópu. En þessum auknu ferðalögum fylgja líka vandamál.

Ding var hér

Kínverskur ferðamaður komst nýverið í heimsfréttirnar fyrir að hringja heilögum klukkum í 14. aldar hofi í Taílandi og klykkja út með því að sparka í þær. Í júní var bresk kona handtekin fyrir að vera nakin á helgu fjalli í Malasíu og fyrr í þessum mánuði var búlgarskur ferðamaður sektaður fyrir að krota nafn sitt á stein í hringleikahúsinu Colosseum í Róm. Árið 2013 varð kínverskur piltur uppvís að því að rispa orðin „Ding Jinhao var hér“ á fornar rústir í Luxor í Egyptalandi og talsverð brögð eru að því að ferðamenn hengi nærfatnað sinn til þerris í hofum í Taílandi.

Sé fjöldi ferðamanna hafður í huga er kannski ekkert óeðlilegt að svona tilvik komi upp. En þetta vekur engu að síður upp ýmsar spurningar.

Í grein sem birtust í bandaríska dagblaðinu The New York Times, NYT, fyrr í mánuðinum er því spáð að grípi stjórnvöld ekki í taumana með strangari reglugerðum um ferðaþjónustu muni margir vinsælir ferðamannastaðir hreinlega verða fyrir óbætanlegum skemmdum á næstu árum og áratugum. Fjallað var um málið í breska dagblaðinu The Guardian fyrr í vikunni og þar var spurt: „Eru þeir allir velkomnir?“ Þar var átt við að sífellt fleiri íbúar fátækari ríkja hafi nú tök á að ferðast á milli landa sem valdi miklu álagi á vinsæla áfangastaði í Evrópu.

Rukkað inn á Markúsartorgið?

Í greininni segir að um 11 milljónir ferðamanna heimsæki Feneyjar á hverju ári, flestir í einn dag eða hluta úr degi. Þetta veldur gífurlegu álagi á innviði og þjónustu í borginni, en skilar litlu í kassann. Nú íhuga yfirvöld í Feneyjum að setja takmörk á fjölda ferðamanna. Uppi eru ýmsar hugmyndir, t.d. að allir sem þangað koma kaupi n.k. aðgöngumiða og fjöldi hverju sinni verði takmarkaður. Sett verði upp hlið á Markúsartorgið og þeir einir fái að fara í gegnum það sem hafi miða. Þetta hefur reyndar lengi verið áhyggjuefni yfirvalda í borginni sem með stífum reglum um fjölda gististaða hefur tekist að halda fjölda ferðamanna sem þar gista í skefjum. Með tilkomu vefsíðna eins og Airbnb.com þar sem íbúar á staðnum leigja út húsnæði sitt til ferðamanna eru slíkar reglur þó haldlitlar.

Bent hefur verið á að með því að taka gjald fyrir að fara á staði eins og Markúsartorgið sé verið að mismuna ferðamönnum eftir efnahag. Reyndar eru flestar hugmyndir um takmörkun á aðgengi ferðamanna gagnrýndar á þeim forsendum, meðal annars ákvarðanir yfirvalda í Bútan sem takmörkuðu fjölda ferðamanna til landsins með því að leyfa einungis tiltekinn fjölda. Þá voru þar settar hömlur á uppbyggingu í hótelrekstri og há gjöld lögð á ferðaþjónustuna. Samkvæmt grein NYT er tilgangurinn að fá þangað ferðamenn sem skila meiru í kassann.

Engin ný hótel í Barselóna

Ein stærstu skrefin í áttina að því að stemma stigu við fjölgun ferðamanna hafa verið tekin í Barselóna. Ada Colau, borgarstjóri þar, kynnti nýverið reglur sem kveða á um að þar í borg verði engir nýir gististaðir opnaðir næsta árið, en þangað komu um 27 milljónir ferðamanna í fyrra. Við viljum ekki að borgin verði hinar nýju Feneyjar eða nýr skemmtigarður, er haft eftir Colau.

Í lok síðari heimsstyrjaldarinnar ákvað franska ríkisstjórnin að nýta Marshall-aðstoðina til að efla ferðaþjónustuna í því skyni að endurreisa efnahaginn. Og sú hefur orðið raunin. Frakkland er mest sótta ferðamannaland í heimi og þar er ávallt haft í huga að ferðaþjónustan styðji við franska menningu. Strangar reglur gilda þar um ferðaþjónustuna og ákvarðanir eru teknar af kjörnum fulltrúum, hvort sem um er að ræða nýtt hótel í Bordeaux-héraði eða skíðalyftu í frönsku Ölpunum.

„Ein af ástæðunum fyrir því að það er erfitt að koma böndum á ferðaþjónustuna er hversu jákvæða ímynd hún hefur,“ segir í grein NYT. „Hún tengist frítíma og skemmtunum, en ekki síður menningu. Heimamenn eru stoltir af því sem land þeirra hefur upp á að bjóða og þess vegna eru tilraunir til að hefta fjölda ferðamanna yfirleitt ekki vinsælar.“

Á hverju ári koma um 27 milljónir ferðamanna til Barcelona.
Á hverju ári koma um 27 milljónir ferðamanna til Barcelona. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert