„Þú gerir ekki rassgat einn“

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, vill breyta því hvernig valið …
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, vill breyta því hvernig valið verður í forystu flokksins. mbl.is/Eggert

„Ég sé fyrir mér að þetta verði til þess að við fáum dreifðari ábyrgð og séum meira í þessu saman. Eins og segir í laginu: Þú gerir ekki rassgat einn,“ segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar í samtali við mbl.is, en hann hyggst leggja til breytingartillögu á hvernig valið verður í forystu flokksins á ársfundinum í september.

„Breytingartillagan, sem er sprottin úr umræðu innan flokksins og er ekki endilega mín en ég myndi vilja tala fyrir henni og leggja hana fram, er um það að þessi embætti innan flokksins; formaður, stjórnarformaður, þingflokksformaður, róterist á milli fólks,“ útskýrir Guðmundur.

Hann segist sjá það fyrir sér að formaður flokksins sitji á þingi ásamt þingmönnum flokksins og sé pólitískur talsmaður Bjartrar framtíðar í 6 mánuði í senn. Eftir það taki einhver annar við keflinu og axli þeirrar skyldu í 6 mánuði, og svo framvegis. „Þá erum við einfaldlega öll á tánum og öll sameiginlega með þessa ábyrgð.“

Þá segist hann sjá fyrir sér að þingflokksformaður taki einn þingvetur í senn og færi síðan keflið öðrum. Loks segist hann sjá fyrir sér að stjórnarformaður, sem er formaður flokksins inn á við og sér um innra starfið, málefnastarfið og samskipti við sveitarstjórnir svo eitthvað sé nefnt, taki keflið á ársfundi og færi það svo öðrum ári síðar.

„Höfum sogast inn í hefðbundinn og súran farveg“

„Við eigum auðvitað eftir að ræða þetta innan flokksins en ég sé fyrir mér að með þessu sé hægt að hætta að hugsa svona mikið um þessi embætti, gera þetta saman, fókusa á pólitíkina og taka slaginn við raunverulega andstæðinga,“ segir hann og bætir við að tillagan verði sett fram sem viðbragð við fylgistapi flokksins. Björt framtíð mælist nú með 4,4 prósenta fylgi, miðað við nýjustu könnun MMR. Eftir að könnunin var birt lýsti Heiða Krist­ín Helga­dótt­ir, varaþingmaður Bjartr­ar framtíðar og fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður flokks­ins, því yfir í útvarpsþættinum Vikulokunum á Rás 1 um helgina að hún væri reiðubú­in að taka við for­mennsku inn­an hans af Guðmundi sé vilji fyr­ir því. Guðmund­ur hefði fengið næg tæki­færi til þess að sanna sig.

Komið hef­ur fram áður að Heiða Krist­ín væri ekki reiðubú­in að taka sæti á Alþingi í stað Bjartr­ar Ólafs­dótt­ur, þing­manns Bjartr­ar framtíðar, sem er á leið í fæðing­ar­or­lof. Hún sagðist hins veg­ar reiðubú­in að end­ur­skoða þá ákvörðun ef Guðmund­ur viki sem formaður.

Aðspurður segist Guðmundur ekki vilja svara þessum ummælum Heiðu Kristínar, en segir það hafa verið lærdómsríkt fyrir flokkinn að missa svo mikið fylgi í skoðanakönnunum. „Það eru margar kenningar fyrir hendi um hvað er að klikka hjá okkur, og þessi tillaga sem ég er að leggja fram er viðbragð við allri slíkri umræðu.“

Þá segir hann flokkinn vera orðinn of hefðbundinn, en með tillögunni geti hann komið til baka inn í pólitíkina betri og ferskari en nokkru sinni fyrr. „Við höfum reynt að hafa öfugan pýramída í okkar röðum upp á breiddina, en mér finnst við hafa sogast inn í hefðbundinn og súran farveg með Bjarta framtíð undanfarið. Þessi ofuráhersla á hver er formaðurinn og mögulega einhver slagur um það embætti; mér finnst ég sjá svo mörg dæmi um það að þetta rústar flokkum og tekur allan fókus af aðalatriðunum sem eiga að vera hugsjónirnar, málefnin og verkefnin sem eru fyrir hendi.“

Gott „comeback“ fyrir Bjarta framtíð

Sjálfur segist Guðmundur ekki telja að eitthvað eitt hafi valdið fylgistapinu. „Eins og ég hef sagt áður þá held ég að við höfum leyft öðrum svolítið að skilgreina okkur og þá hefur verið horft framhjá því sem við erum að gera á þingi. Fullt af málum hafa verið samþykkt og við höfum talað fyrir mjög skýrum áherslum í fjölmörgum málum og svo höfum við þurft að heyra það síendurtekið að eina mál flokksins sé að breyta klukkunni,“ segir hann og bætir við að allir stjórnmálaflokkar búi við áróður gegn sér. „Við þurfum bara að svara betur. Við þurfum að láta fólk betur vita um hvað við snúumst. Þetta yrði gott „comeback“ fyrir okkur,“ segir hann og heldur áfram:

„Ég hef fulla trú á því að þegar við komumst í gegnum þetta allt saman á farsælan og uppbyggilegan hátt munum við koma af fullu afli til baka með okkar hugsjónir og stefnur. Við höfum verið með mikið málefnastarf að undanförnu og förum að uppskera úr því. Mér er mikið í mun að formannsslagir taki ekki fókusinn af því.“

Mörgum finnist hugmyndin góð

Guðmundur segir hugmyndina hafa verið að gerjast innan flokksins undanfarið, en það hafi verið Brynhildur Pétursdóttir sem setti hana á flot innan flokksins. Aðspurður um það hvort hann telji þingmenn flokksins sammála þessari breytingu segist hann hafa heyrt á mörgum að þeim finnist hugmyndin góð. „Auðvitað þurfum við að ræða þetta og það eru alls kyns útfærslur sem við þurfum að spá í, en við erum ekki hefðbundinn flokkur og viljum ekki fara með flokkinn í hefðbundna pytti heldur viljum við hugsa út fyrir rammann.“

Loks segist Guðmundur hafa trú á því að með þessu verði flokkurinn sterkari fyrir vikið, en eðlilegt sé að grundvöllurinn sé ekki sterkur fyrir svo nýjan flokk. „Við ætlum að gera okkar besta og ef við náum að koma okkar stefnu og nálgun á pólitík á framfæri, okkar hugsjónum og svara okkar andstæðingum fullum hálsi fram að kosningum 2017 og erum sátt við þetta allt saman þá er takmarkinu náð og þá fer það eins og það fer,“ segir Guðmundur. „Það var kannski ágætt að fá spark í rassinn á miðju kjörtímabilinu.“

Heiða Kristín Helgadóttir segist vera reiðubú­in að taka við for­mennsku …
Heiða Kristín Helgadóttir segist vera reiðubú­in að taka við for­mennsku inn­an flokksins af Guðmundi sé vilji fyr­ir því. mbl.is/Ómar
Guðmundur segir flokkinn vera orðinn of hefðbundinn.
Guðmundur segir flokkinn vera orðinn of hefðbundinn. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert