Íslandsmeistari í stutta stund

Væntanlega hafa það verið líkindin með eftirnafni Pawels Bartoszek og …
Væntanlega hafa það verið líkindin með eftirnafni Pawels Bartoszek og fornafni sigurvegarans, Bartosz Olszewski, sem rugluðu mótshaldara. Mynd/Skjáskot

Stærðfræðingurinn og pistlahöfundurinn Pawel Bartoszek var í stutta stund kynntur sem sigurvegari Reykjavíkur maraþonsins í dag, þrátt fyrir að vera tveimur og hálfri klukkustund á eftir fyrsta manni. Mistök voru gerð í fréttatilkynningu frá hlaupinu og var Pawel ruglað saman við landa sinn Bartosz Olszewski, sem kom í mark á 02:29:30.

Hlaupið í 15 ár með hléum

„Þetta var mikill heiður þótt stutt væri,“ segir Pawel glaður í bragði þegar mbl.is náði tali af honum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hann hleypur maraþon, en á þeim 15 árum sem hann hefur stundað hlaup hefur hann tvisvar áður farið heilt maraþon. Pawel viðurkennir að þrátt fyrir að árafjöldinn sé mikill, þá hafi verið talsvert um hlé á þessum tíma, meðal annars vegna fjölgunar í fjölskyldunni og annarra anna.

„Upprunalega vildi ég verða hraustari og koma mér í form. Það sama á við núna. Þetta er ódýr og einföld líkamsrækt sem getur gefið af sér það að taka þátt í skipulögðum viðburðum og það er eitt það skemmtilegasta sem ég geri,“ segir Pawel um ástæður þess að hann fór út á hlaupabrautina.

Rauðvín eða æfingar fyrir maraþon

Í vor var Pawel ekki á leið í maraþon í ágúst, en hann hafði skipulagt nokkuð langt frí frá vinnunni og vissi ekki alveg hvað hann ætti að taka sér fyrir hendur. „Mér datt í hug að ég gæti nýtt það í að drekka rauðvín og lesa bækur, eða eitthvað eins og þetta,“ segir hann og að lokum fékk rauðvínið að víkja og hlaupaskórnir voru reimaðir á.

Hann segir æfingatímabilið hafa samanstaðið af átta vikum og þegar hann hafi verið að leita sér ráða á hlaupasíðum á netinu hafi hann fengið þau viðbrögð frá fólki að þetta væri heldur stuttur tími. Segir hann einn þó hafa svarað á þann veg að þar sem þetta væri nafnlaus þráður væri væntanlega ekki hægt að lögsækja sig og því gefið honum ráð um hvernig skammtímamaraþonþjálfun væri best.

Tími Pawels var 04:57:51 mínúta og segir hann árangurinn vera ánægjulegan, enda sé þetta 1,5 mínútum betri tími en hann átti fyrir. Pawel segir að í dag hafi hann lent seinna í hlaupinu á hinum umtalaða hlaupavegg en þegar hann tók þátt síðast.

Sigurvegari í stutta stund

Eins og fyrr segir var Pawel ranglega sagður sigurvegari hlaupsins strax eftir að því lauk. Það var þó leiðrétt fljótlega, en ekki fyrr en lesendur vefmiðla höfðu náð skjáskotum af þessum meinta gríðargóða árangri hans. Segir Pawel að þegar hann hafi séð þetta fyrst hafi hann talið að félagar hans væru að fikta í kóða á Facebook og rugla í sér. Svo hafi þetta birst á fleiri stöðum.

Segir hann í gríntón að mögulega ætti hann að hætta við að leiðrétta þetta, skella sér í pólitík og taka upp leiðtogadýrkun eins og hjá leiðtogum í Norður-Kóreu. „Það væri kannski pólitískt sniðugt, en siðferðilega mjög rangt,“ segir Pawel skellihlæjandi, enda samtal hans og blaðamanns orðið hálf farsakennt.

Uppfært kl 18:25: Í upphaflegu fréttinni kom fram að tími Pawels væri 04:59:41, en það var byssutími hans. Flögutíminn var aftur á móti 04:57:51. Er Pawel beðinn afsökunar á þessum mistökum.

Pawel Bartoszek var tilkynntur sem sigurvegari hlaupsins í stutta stund …
Pawel Bartoszek var tilkynntur sem sigurvegari hlaupsins í stutta stund í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert