Bentu á fjórða manninn

Fjórði maðurinn er sennilega tilbúningur þremenninganna.
Fjórði maðurinn er sennilega tilbúningur þremenninganna. mbl.is/Rax

Hæstiréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð yfir þremur mönnum sem grunaðir eru um víðtæk fjársvik með stolnum greiðslukortanúmerum. Líkt og kom fram á mbl.is í gær þá voru mennirnir úrskurðaðir í gæsluvarðhald þangað til síðdegis á föstudag. Mennirnir eru allir í einangrun.

Í greinargerð lögreglunnar kemur fram að upphaf málsins megi rekja til tilkynningar sem lögreglu barst  19. ágúst um að reynt hafi verið að panta fartölvu í gegnum netverslun verslunarinnar þar sem gefin hafi verið upp kennitala sem ekki hafi staðist. Varan hafi því ekki verið send. 

Í kjölfarið hafi lögregla leitað upplýsinga frá færsluhirðafyrirtækjum og orðið þess vísari að fleiri pantanir hefðu verið gerðar í netfyrirtækjum hérlendis sem sendast ættu á sama heimilisfang. Þann 20. ágúst fékk lögregla  tilkynningu um að vara hafi verið pöntuð á sama nafn og heimilisfang í gegnum netverslun og greitt hafi verið fyrir hana með stolnum greiðslukortaupplýsingum. Þar sem grunur hafi leikið á fjársvikum hafi lögregla látið seljandann afhenda annan pakka og í kjölfar þess að mennirnir hafi tekið við pakkanum  21. ágúst sl. hafi þeir verið handteknir.

Í kjölfarið, að fengnu samþykki, hafi verið gerð húsleit á vettvangi. Fundist hafi ýmsar vörur, óuppteknar í umbúðum sem búið hafi verið að pakka ofan í ferðatösku og fartölvur sem talið sé að tilheyri þremenningunum sem dvöldu í húsnæði sem þeir höfðu leigt í gegnum leigumiðlun á netinu.

Við leit í húsnæðinu hafi það borið þess merki að einungis 3 menn dveldust þar og sömu upplýsingar hafi fengist frá leigusalanum auk þess sem lögregla hefði fylgst með húsnæðinu áður en til handtöku hafi komið og ekki orðið vör við að fleiri dveldust í húsnæðinu.

Þegar lögreglumenn hafi fyrst haft afskipti af sakborningum hafi þeir sagt að með þeim hefði verið fjórði maðurinn en ekki getað gefið upplýsingar um hann.

Lögregla telur að miðað við það sem hafi komið fram þá sé fjórði maðurinn tilbúningur þremenninganna en þeir þrír sögðust ekkert kannast við að hafa pantað vörurnar. Eins virtust þeir ekki vita nein deili á fjórða manninum.

„Rannsókn málsins sé á frumstigi. Miðað við það sem fram hafi komið í málinu sem hér sé til skoðunar og hvernig það sé framkvæmt telji lögregla líklegt að um sé að ræða lið í skipulagðri brotastarfsemi sem teygi anga sína til fleiri landa. Liggi fyrir að skoða þurfi fjölda gagna þ.á.m. rekja slóð þeirra muna sem lögregla haldlagði að [...] og rannsaka greiðslur þeirra sem og þær greiðslukortaupplýsingar sem lögregla hafi þegar undir höndum sem og rannsaka innihald rafrænna gagna í haldlögðum tölvum sakborninga. Muni lögregla þurfa leita aðstoðar erlendra löggæslustofnanna og eftir atvikum greiðsluþjónustufyrirtækja til að upplýsa málið og til að hafa uppi á hugsanlegum samverkamönnum sakborninga,“ segir í greinargerð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þrír fjársvikarar í gæsluvarðhaldi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert