Þrír fjársvikarar í gæsluvarðhaldi

Auðvelt er að nálgast kortaupplýsingar og slíkar upplýsingar ganga kaupum …
Auðvelt er að nálgast kortaupplýsingar og slíkar upplýsingar ganga kaupum og sölum á netinu. AFP

Þrír menn sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um að hafa svikið út flugmiða, gistingu og vörur með stolnum greiðslukortanúmerum.

Mennirnir voru handteknir á föstudag og úrskurðaðir í gæsluvarðhald þar til síðdegis á föstudag á meðan málið er í rannsókn lögreglu að sögn Hafliða Þórðarsonar, lögreglufulltrúa í auðgunarbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vísir greindi fyrst frá málinu í gærkvöldi.

Að sögn Hafliða er rannsókn ekki lokið og því ekki ljóst hversu háar fjárhæðir er um að ræða en þar sem upp komst með svikin frekar fljótt þá er tjónið ekki jafn mikið og það hefði geta orðið.

Allt bendir til þess að mennirnir hafi komist yfir kortanúmerin, sem eru íslensk, og öryggistölu þeirra, í gegnum innbrot í erlendri vefverslun en mennirnir eru útlenskir. „Við vitum að slík númer ganga kaupum og sölum á netinu,“ segir Hafliði í samtali við mbl.is. 

Hafliði segir að í flestum tilvikum þegar um auðgunarbrot með stolnum kortanúmerum er að ræða þá hafi upplýsingarnar fengist við innbrot í slíkar vefverslanir. En í einhverjum tilvikum hefur viðkomandi haft kortið sjálft undir höndum og þar sjást þær upplýsingar sem þarf að nota við viðskipti á netinu, það er kortanúmer, dagsetning og öryggisnúmer, þriggja stafa tala á bakhlið kortsins.

Hann hvetur þá sem selja vörur gegnum netið að vera á varðbergi þegar einhverjir kaupa mikið af vöru sem er þægilegt að selja aftur eða ef eitthvað óeðlilegt er við pöntunina og ef varan er keyrð út til viðkomandi að biðja um að fá að sjá kortið sem keypt er út á.

Aðspurður um hvort algengt sé að mál af þessu tagi komi til kasta lögreglu segir hann að sambærileg mál séu til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum en með aukinni rafrænni verslun megi búast við því að auðgunarbrotum af þessu tagi fjölgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert