Þriðjungur vill fleiri en 500 flóttamenn

Margir hafa flúið til Evrópu, m.a. Sýrlendingar.
Margir hafa flúið til Evrópu, m.a. Sýrlendingar. AFP

MMR kannaði nýlega viðhorf Íslendinga til þess fjölda flóttamanna frá Sýrlandi sem Ísland ætti að taka á móti á næstu 12 mánuðum. Í heild voru 88,5% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðust vilja taka á móti einhverjum fjölda flóttamanna. Töluverður mismunur reyndist hins vegar á fjölda þeirra flóttamanna sem svarendur töldu að landið ætti að taka á móti. Þannig voru 19,1% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðu að taka ætti á móti allt að 50 flóttamönnum, 14,0% sögðu að taka ætti við allt að 150 flóttamönnum, 25,2% nefndu að taka ætti við á bilinu 151 til 500 flóttamönnum og 30,2% sögðu að taka ætti á móti fleiri en 500 flóttamönnum.

Sé sá fjöldi flóttamanna sem svarendur töldu að Ísland ætti að taka á móti frá Sýrlandi á næstu 12 mánuðum greindur frekar má sjá að 10,7% töldu að Ísland ætti að taka á móti allt að 250 flóttamönnum, 14,5% nefndu allt að 500 flóttamenn, 9,0% nefndu 501-1000 flóttamenn, 6,5% nefndu 1001-2000 flóttamenn og 14,8% þeirra sem tóku afstöðu töldu að ísland ætti að taka við yfir 2000 flóttamönnum.

Spurt var: Hversu mörgum, ef einhverjum, flóttamönnum frá Sýrlandi telur þú að Ísland eigi að taka á móti á næstu 12 mánuðum?
Svarmöguleikar voru: Engum, allt að 50, allt að 150, allt að 250, allt að 500, allt að 750, allt að 1.000, allt að 1.250, allt að 1.500, allt að 1.750, allt að 2.000, meira en 2.000 flóttamenn og veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 84,6% afstöðu til spurningarinnar

Töluverður munur á afstöðu eftir stuðningi við ríkisstjórnina

Nokkur munur reyndist á viðhorfi svarenda til fjölda flóttamanna sem Ísland ætti að taka á móti eftir stuðningi þeirra við stjórnmálaflokka. Af þeim sem studdu ríkisstjórnina og tóku afstöðu voru 42% sem sögðu að taka ætti á móti engum eða allt að 50 flóttamönnum á næstu 12 mánuðum samanborið við 23% þeirra sem ekki studdu ríkisstjórnina. Þá voru 23% þeirra sem studdu ríkisstjórnina sem nefndu að taka ætti á móti fjölda sem væri yfir 250 samanborið við 54% þeirra sem ekki studdu ríkisstjórnina. Af stuðningsmönnun einstaka stjórnmálaflokka reyndust fylgismenn Bjartrar framtíðar hlynntastir því að taka á móti miklum fjölda flóttamanna en 36% stuðningsmanna flokksins sögðu að taka ætti á móti fleiri en 2000 flóttamönnum. Á móti reyndust fylgjendur Framsóknarflokksins síst þá því að taka á móti flóttamönnum, en 18% þeirra töldu að taka ætti við engum flóttamönnum frá Sýrlandi á næstu 12 mánuðum.

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1.023 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 31. ágúst til 3. september 2015

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert