31 hælisleitandi á 11 dögum

Flóttafólk bíður í nágrenni skráningarbúða í Serbíu.
Flóttafólk bíður í nágrenni skráningarbúða í Serbíu. AFP

31 flóttamaður hefur sótt um hæli þar sem af er september mánuði og ljóst er að enn mun bætast í hópinn. Þetta segir Áshildur Linnet, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum. 

Það þýðir að alls hafa 185 sótt um hæli á Íslandi það sem af er árinu en eins og fram hefur komið sóttu 154 um hæli á tímabilinu 1. janúar til 31. ágúst 2015. Í ágúst sóttu 49 manns um hæli og var það metfjöldi en líklegt má telja að metið falli aftur í þessum mánuði. 43% þeirra sem sótt hafa um hæli á árinu komu á síðustu sex vikum. og leiða má líkur að því að um miðjan september mánuð hafi fleiri sótt um hæli hér á tveimur vikum en allt árið 2009 þegar 35 manns sóttu um hæli alls.

Áshildur tekur fram að börn eru einnig inni í tölunum um hælisleitendur en að ekki hafi gefist tími til að taka saman nákvæmar tölur yfir hversu mörg þau eru. Hinsvegar sé merkjanlega meira af börnum meðal hælisleitenda en oft áður. 

„Hvert barn þarf ákveðna athygli og með svona miklum fjölda eykst álagið á alla. Ég held að allir sem eru að vinna í þessum bransa geri ráð fyrir að straumurinn minnki ekki,“ segir Áshildur.

„Það er náttúrlega bara í takt við það sem er að gerast annars staðar í Evrópu. Sveiflurnar hér eru yfirleitt í takt við það sem er að gerast í kringum okkur. Auðvitað kemur einhver hluti þessarar aukningar fram hér eins og annars staðar.“

Bæta við félagslegum úrræðum

Áshildur segir Rauða krossinn reyna að bregðast við auknum fjölda flóttafólks með því að bæta við félagslegum úrræðum. Verið sé að taka upp vikulega viðburði fyrir börn, opin hús fyrir fullorðna séu tvisvar í viku, sjálfboðaliðar hyggist taka upp vísi að tungumálakennslu auk þess sem þeir hafa komið á laggirnar föstum fótboltatíma einu sinni í viku. 

„Við erum að taka inn mikið af fólki sem er hluti af þessum 1.100 beiðnum um sjálfboðaliðastörf sem okkur hafa borist undanfarið. Við reynum að nýta það afl til að létta undir með fólki á sama tíma og yfirvöld reyna að koma öllum í öruggt skjól.“

Útlendingastofnun sér um að útvega hælisleitendum húsnæði, sem er ærið verk enda bætist sífellt í. Áshildur segir að enn séu allir hælisleitendur með þak yfir höfuðið en að mikið mæði á þeim starfsmönnum útlendingastofnunnar sem bera ábyrgð á húsnæðismálum. 

„Með því að vinna allan sólarhringinn hefur þeim tekist að koma öllum fyrir, en það er þröngt. Samhliða er verið að leita lausna fyrir stærri úrræði. Það er tiltölulega nýbúið að opna úrræði á Bæjarhrauni sem átti að verða fyrsta móttökumiðstöð en það er auðvitað allt orðið fullt þar,“ segir Áshildur.

Varanlegri lausnir, hratt!

Fjöldi hælisleitenda hefur aukist hratt og segir Áshildur mikilvægt að bregðast snöggt við vandanum. Rík­is­stjórn Íslands samþykkti á fundi sín­um í morg­un að setja fimm­tíu millj­ón­ir króna strax í kostnað vegna um­sókna um hæli og er það gert til að auka skilvirkni í kerfinu. 

Áshildur segir erfitt fyrir Rauða krossinn að segja til um hvort yfirvöld séu að bregðast nógu hratt við.

„Við vitum að vinnan er í gangi en við einbeitum okkur að okkar hluta og því hvernig við getum virkjað fleiri sjálfboðaliða svo fólki líði sem best. En það er alveg ljóst að það þarf að finna einhverjar stærri og varanlegri lausnir og það hratt.“

Hvort sem yfirvöld séu nógu snögg í snúningum eða ekki segir Áshildur viðbrögð almennings hafa verið dásamleg og að verið sé að vinna úr því sem sjálfboðaliðar geti lagt af mörkum. 

„Það væri ekki hægt að auka svona mikið á félagsstarfið nema af því að við erum að fá fólk sem er tilbúið að framkvæma. Við höfum fína aðstöðu í okar húsnæði en höfum líka notið mikillar góðvildar úti í samfélaginu, í stofnunum og fyrirtækjum sem gera okkur kleift að halda uppi öflugu félagsstarfi.“

Alls hafa 185 sótt um hæli á Íslandi á árinu, …
Alls hafa 185 sótt um hæli á Íslandi á árinu, þar af 43% í ágúst og september. AFP
Meira er um börn meðal hælisleitenda hér á landi en …
Meira er um börn meðal hælisleitenda hér á landi en áður. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert