Staðsetning Íslands mikilvæg

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Heimsóknin veitti ráðherranum tækifæri til þess að hitta íslenska embættismenn og kanna milliliðalaust aðstæður á Keflavíkurflugvelli og þá möguleika sem þær bjóða upp á. Staðsetning Íslands á Norðurslóðum er herfræðilega afar mikilvæg fyrir NATO og við metum mikils áframhaldandi stuðning landsins þegar kemur að sameiginlegri þjálfun og æfingum á vegum bandalagsins.“

Þetta kemur fram í svari frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu við fyrirspurn frá mbl.is vegna heimsóknar Roberts O. Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, til Íslands á dögunum. Eins og fréttavefurinn hefur fjallað um lét ráðherrann þau orð falla í tengslum við heimsóknina að hann vildi skoða mannvirkin á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli til þess að kanna hvort mögulegt væri að taka þau í notkun á ný en bandarísk herstöð var á svæðinu fram til ársins 2006.

Ræddu starfsemi Bandaríkjanna á Íslandi

Ennfremur segir í svarinu að Work hafi á fundum með íslenskum embættismönnum ítrekað skuldbindingar Bandaríkjamanna vegna varna Íslands. Fundur með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra hafi að mestu snúist um varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna og sameiginlega öryggishagsmuni landanna. Meðal annars með tilliti til Norðurslóða. Þá hafi Work komið á framfæri þakklæti til Íslendinga fyrir framlag þeirra til varna NATO í norðri.

Ennfremur hafi Work rætt með hvaða hætti starfsemi Bandaríkjamanna yrði á Keflavíkurflugvelli í framtíðinni. Heimsókn hans til Íslands hafi lokið með heimsókn á öryggissvæðið á flugvellinum. Þar hafi hann komið á framfæri þakklæti til Íslendinga fyrir forystuhlutverk þeirra við að stuðla að aukinni samvinnu í málefnum Norðurslóða. Meðal annars varðandi leit og björgunar á hafi.

Engin áform um að herstöðin snúi aftur

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hefur komið fram í samtölum Bandaríkjamanna við íslenska ráðamenn að í ljósi breytts öryggisumhverfis gæti verið ástæða fyrir stjórnvöld í Bandaríkjunum að auka viðveru bandarísks liðsafla á Íslandi. Frumkvæðið í þeim efnum hafi hins vegar ekki komið frá íslenskum stjórnvöldum og engar formlegar viðræður átt sér stað í þeim efnum.

Jafnframt segir í svari ráðuneytisins að íslensk stjórnvöld hafi lagt áherslu á að bandarísk hermálayfirvöld legðu eigið mat á lágmarksþörf varnarmannvirkja- og búnaðar á Íslandi til að geta framfylgt varnarskuldbindingum Bandaríkjamanna gagnvart Íslandi og öðrum aðildarríkjum NATO. Að sögn Gunnars Braga eru þó engar hugmyndir uppi um að herstöðin snúi aftur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert