„Verði jafnvel öðrum hvatning“

„Þegar við fórum að skoða þetta þá auðvitað áttuðum við okkur á því að umfang vandans var enn stærra en maður hafði gert sér í hugarlund og þetta er enn flóknara en maður hafði áttað sig á. En með starfi nefndarinnar og fjölda fólks sem er búið að aðstoða okkur í þessari vinnu, bæði í ráðuneytum og eins hinum ýmsu félagasamtökum, er þó búið að takast að setja saman áætlun sem við höfum mikla trú á og teljum að muni standast allan samanburð við það sem aðrar þjóðir eru að gera til þess að takast á við þetta mikla vandamál og geti jafnvel orðið öðrum hvatning.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag þar sem hann tilkynnti ásamt öðrum ráðherrum í ráðherranefnd um málefni flóttamanna að tveimur milljörðum króna yrði varið til móttöku flóttamanna hér á landi og alþjóðlegri aðstoð við flóttamenn. Gert er ráð fyrir að tekið verði við um eitt hundrað flóttamönnum á þessu ári en aðrar tölur hafa ekki verið ákveðnar. Sigmundur sagði að frá upphafi hafi frumforsendan verið sú að líta á heildarvandann en ekki aðeins afmarkaðan hluta hans. Skoða yrði með hvaða hætti hægt væri að taka á móti svonefndum kvótaflóttamönnum en einnig horfa til þess að flóttafólk frá stríðshrjáðum svæðum ætti eftir að koma í auknum mæli eftir öðrum leiðum.

Von án þess að leita á náðir glæpamanna

„Þannig að það þarf að skoða þetta saman. En það þarf líka að skoða með hvaða hætti við getum komið að liði á staðnum í löndunum í kringum Sýrland og jafnvel í Sýrlandi sjálfu í flóttamannabúðum þar þannig að fólk búi þar ekki við jafn slæmar aðstæður og því miður er raunin sums staðar. Meðal annars í Líbanon. Þannig að þar teljum við mikilvægt að við leggjum okkar að mörkum til að bæta þar ástandið en einnig svo fólk skynji að það sé von þó menn leiti ekki á náðir glæpamanna og fari í hættuför til þess að reyna að komast til Evrópu.“

Þess vegna legði ríkisstjórnin til að verulegu fjármagni verði varið til þess að takast á við flóttamannavandanna. Hins vegar yrði ekki ákveðið endanlega með hvaða hætti því yrði varið þar sem stjórnvöld vildu geta brugðist við eftir því hvernig málin þróuðust. Tveimur milljörðum króna yrði varið til málaflokksins til viðbótar öðru fjármagni. Annars vegar eina milljón á fjáraukalögum á þessu ári og lagt yrði til við Alþingi að annar milljarður færi til málaflokksins á fjárlögum næsta árs. 

„Það mun þá nýtast til að bregðast við mikilli fjölgun hælisleitenda á Íslandi. Það mun nýtast til þess að taka vel á móti kvótaflóttamönnum sem mun koma hingað, allavega fyrstu hóparnir frá flóttamannabúðum í Líbanon, og einnig mun þetta gera okkur kleift að setja verulegt fjármagn í að bæta aðstöðu fólks í flóttamannabúðum. Meðal annars með matvælum, lyfjum og heilbrigðisþjónustu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert