Vitni aðhöfðust ekkert

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Svo virðist sem að sjónarvottar hafi verið að því þegar tveir menn brutust inn um rúðu á skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar á Laugavegi og stálu þaðan úrum um ellefuleytið í gærkvöldi en þeir hafi ekkert aðhafst. Lögreglan áætlar að hundruð þúsunda króna verðmætum hafi verið stolið úr versluninni.

Fyrstu fréttir af innbrotinu hermdu að það hefði átt sér stað eftir miðnætti í nótt en samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu brutust mennirnir inn um rúðu sem snýr út að Laugavegi um ellefuleytið í gærkvöldi.

Mennirnir gátu klárað ætlunarverk sitt og haft sig á brott þrátt fyrir að vegfarendur hafi orðið vitni að því. Þeir sjónarvottar sem voru á staðnum þegar lögreglu bar að garði gátu ekki gefið áreiðanlegar lýsingar á mönnunum tveimur. Enginn hafi heldur enn gefið sig fram við lögreglu með frekari upplýsingar.

Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um málið eru beðnir um að hafa samband við lög­reglu í síma 444 1000.

UPPFÆRT KL. 11:59: Í tilkynningu frá lögreglu kom fram að mennirnir hafi brotist inn í skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar á Laugavegi 5.

Fyrri frétt mbl.is: Stálu nokkrum fjölda úra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert