Beinharðir peningar ekki allt

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson firsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson firsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Framlög frá slitabúum föllnu bankanna í beinhörðu fé verða aðeins hluti af þeim stöðugleikaframlögum sem búin leggja fram og því ekki rétt að horfa eingöngu til þess. Einnig verður um að ræða afhendingu ýmissra eigna, framsal krafna, innlán, skilyrt skuldabréf og hlutdeild ríkisins í söluandvirði nýju bankanna.

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem vildi vita hvernig staðið yrði að málum í þessum efnum. „Þannig að það er mjög villandi, og raunar bara rangt, að tala um stöðugleikaframlagið eins og það sé eingöngu þessi tiltekna peningaupphæð,“ bætti ráðherrann við og vísaði til umræðu um þessi mál að undanförnu.

Þar hefur verið bent á að framlag slitabúanna í beinhörðu fé virtist ætla að verða mun minna en gert hafi verið ráð fyrir að rynni í ríkissjóð ef lagður yrði 39% stöðugleikaskattur á búin. Slitabúin hafa fram að áramótum til að uppfylla skilyrði stjórnvalda en takist það ekki verður skatturinn lagður á þau. 

Katrín kvartaði ennfremur yfir skorti á samráði við þingið um málið og undir það tók Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, í annarri fyrirspurn til forsætisráðherra. Sigmundur sagði samráð hafa verið haft en tók að öðru leyti vel í frekari fundi með fulltrúum stjórnarandstöðunnar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert