„Ég er ekkert hræddur við þetta“

mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Ég er ekkert hræddur við þetta. Ég hef aldrei óttast áskoranir eða verið hræddur við einn né neinn og læt ekkert vaða yfir mig,“ segir Magnús Ver Magnússon í samtali við mbl.is eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið til að greiða honum 600 þúsund krónur í misabætur auk dráttarvaxta vegna eftirlits sem hann sætti af hálfu lögreglunnar.

Eftirlitið var hluti af rannsókn á meintri aðild Magnúsar að stórfelldum innflutningi á fíkniefnum til landsins. Fylgst var með Magnúsi í þrjú ár en að lokum var rannsókn málsins hætt fyrir ári síðan. Hann reiknar með að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar en hann fór fram á 10 milljónir í miskabætur. Ríkið viðurkenndi bótaskyldu í málinu en fór fram á að bótakrafan yrði lækkuð verulega. Málskostnaður í héraði var látinn niður falla.

Frétt mbl.is: „Varð kjaftstopp og hissa“

„Það felst vitanlega í þessu viðurkenning á því að brotið hafi verið gegn mér og að ríkið væri bótaskylt og það skiptir auðvitað miklu máli. En ef þetta eru skilaboðin frá hinu opinbera þegar svona brot eiga sér stað. Hvað kemur þá í veg fyrir að þeir fari áfram fram með þessum hætti gagnvart borgurunum í landinu ef það er ekki slegið almennilega á puttana á henni?“ segir Magnús. Þannig sé upphæðin sem honum var dæmd vonbrigði enda hafi hann verið að vonast til þess að málið gæti orðið að fordæmi í þessum efnum. Peningarnir séu ekki aðalmálið heldur sé að hans mati um að ræða ákveðið prinsippmál.

Eins og einnar krónu sekt fyrir hraðaakstur

„Þetta er svona hliðstætt við að þú keyrðir of hratt og fengir eina krónu í sekt. Þetta er enginn peningur fyrir ríkið. Þess utan kemur þetta ekki úr einhverjum sjóðum hjá lögreglunni heldur bara úr ríkissjóði. Þetta eru óbeint tjón fyrir lögregluna,“ segir Ólafur Karl Eyjólfsson lögmaður Magnúsar. Hann bendir á að eins og mikið hafi verið fjallað um í þjóðfélagsumræðunni sé alltof auðvelt fyrir lögregluna að fá samþykktar heimildir til þess að fylgjast með borgurunum.

„Þegar ég brýt af mér er ég dreginn til ábyrgðar. Innan lögreglunnar er enginn dreginn til ábyrgðar,“ segir Magnús. „Þetta mál snýr ekkert bara að Magnúsi heldur öllum þeim sem lenda í sömu stöðu. Magnús bara þorir að gera þetta. Ég er ekki viss um að það séu margir sem þora að gera þetta,“ segir Ólafur. Magnús segist hvergi banginn að fara með málið alla leið. Hann geri fyrir vikið fastlega ráð fyrir að því verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Fleiri fréttir mbl.is:

Magnúsi dæmdar 600 þúsund krónur í bætur

Fylgst með honum í tæp þrjú ár

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert